140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hið síðastnefnda. Það er lítill hvati hjá fólki að leggja peninga inn í sparisjóð sem þarf að borga 5% aukalega í skatt umfram banka vegna samfélagssjónarmiða.

Ég vil benda á, eins og kom fram í ræðu hér áðan og ég ætla að endurtaka fyrir hv. þingmann, að eigið fé allra íslenskra fyrirtækja samkvæmt glæru sem ríkisskattstjóri sýndi fyrir ári síðan var 7 þús. milljarðar, það hafði vaxið mjög hratt á örfáum árum í 7 þús. milljarða í árslok 2007. Ári seinna var það komið niður í 50 milljarða og ári síðar niður í mínus 1.400 milljarða. Þetta var um allt kerfið, það var allt fullt af eignum sem ekki voru til.

Þegar bankarnir lánuðu svo fyrirtækjum, hvort sem það var FL Group eða hvað það var, Baugur eða ég vil ekki nefna það, þá var loft þar líka sett að veði. Það er á þessu sem bankarnir töpuðu. Það var ekki bara loftið í þeim sjálfum, eigið fé þeirra, heldur voru allar lánveitingarnar byggðar á lofti. Lánveitingar erlendra aðila til Íslands, þýskra banka, voru líka byggðar á lofti. Matsfyrirtækin mátu bankana með „triple-A“, þreföldu A, ári fyrir hrun sem byggðist á lofti. Maður er alveg gáttaður á því að menn skyldu ekki hafa séð að þetta var loft og hvernig það varð til.