140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:14]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það virðist hafa verið mikið af lofti, en ég er ekki alveg viss um að tölurnar séu réttar, eigið fé íslenskra fyrirtækja var aldrei 7 þús. milljarðar, að hámarki fór það í eitthvað um 700 milljarða. Það varð aldrei margföld landsframleiðsla heldur komst það upp í 30–40%.

Hvað varðar að taka við innlánum, borga af þeim 1% í innstæðutryggingarsjóð og fara síðan með þau yfir í annan banka sem borgar aftur í innstæðutryggingarsjóð og svo aftur til baka hljómar ekki mjög trúverðugt. Það er ekki gott bisnessmódel. Ég held að það sem þingmaðurinn er að lýsa sé mögulegt en ég held ekki að hægt sé að gera það í hagnaðarskyni. Það yrði ekki mikill hagnaður eftir vegna þess að vaxtamunurinn milli inn- og útlána gæti aldrei orðið það mikill að hægt væri að standa undir slíkum æfingum, ekki í sparisjóðakerfi þar sem 5% af tekjum eru tekin í samfélagsleg verkefni og annað slíkt, það gæti aldrei orðið nógu arðsamt.

Ég er aftur á móti sammála punktinum, sem hv. þingmaður kom með, að girða þurfi fyrir að hægt sé að krosslána og kaupa í sjálfum sér í gegnum einhverja leppa o.s.frv. og lána fyrir hlutafjárkaupum. Það þarf að koma í veg fyrir það allt saman en það þarf ekkert endilega að gera það akkúrat í þessu frumvarpi. Ég held að það sé miklu almennara mál.