140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál er ágætisdæmi um það hvað gerist á Alþingi Íslendinga þegar unnið er eins og gert er undir forustu hæstv. ríkisstjórnar. Ég held að það sé við hæfi, virðulegi forseti, að menn skoði ræður t.d. fyrrverandi hæstv. viðskiptaráðherra, Gylfa Magnússonar, frá 9. júní 2009, og skoði umræðuna, ekki fyrir 100 árum, ekki 50 árum, ekki tíu árum heldur árið 2009. Þá kom hæstv. ríkisstjórn með rosasparisjóðafrumvarp. Og það var eins og annað hjá þessari hæstv. ríkisstjórn, það átti að afgreiða það einn, tveir og tíu og hér stóðu stjórnarliðar og hótuðu hv. þingmönnum, t.d. hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, öllu illu ef þeir voguðu sér að ræða málið.

Nú er ljóst miðað við þetta nýja frumvarp hæstv. ríkisstjórnar að allt það sem var sagt í hinu frumvarpinu, öll markmiðin, öll fögru orðin, allur orðaflaumurinn var fullkomið rugl. Ég ætla, virðulegi forseti, að leyfa mér að lesa upp úr ræðu fyrrverandi hæstv. ráðherra, Gylfa Magnússonar, þegar hann flutti það mál. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Þær meginbreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru þessar:

Gerð er tillaga sem eyða á vafa um félagaform sparisjóðanna. Í frumvarpinu er kveðið á um að stofnfjársparisjóðir séu sjálfseignarstofnanir. Einnig eru eignarréttindi stofnfjáreigenda afmörkuð og er tekið fram að þau takmarkist við bókfært stofnfé og er sérstaklega tiltekið að stofnfjáreigendur eigi enga hlutdeild í óráðstöfuðu eigin fé eða varasjóðum sparisjóðs.

Tengist skilgreiningin á sparisjóði og réttindum stofnfjáreiganda m.a. því að í frumvarpinu er hvorki gert ráð fyrir að stofnaðir verði nýir hlutafélagasparisjóðir“ — hlustið á þetta, virðulegi forseti — „né að unnt verði að breyta stofnfjársparisjóðum í hlutafélagasparisjóði.“

Virðulegi forseti. Síðan eru tilgreindir allra handa hlutir og vísað í að nefnd hafi unnið í þessu og hvað eina. Í örstuttu máli sagt er öllu því sem ríkisstjórnin gerði á þeim tíma snúið við og hent út um gluggann. Það væri kannski allt í lagi ef þessi stefna hæstv. ríkisstjórnar hefði ekki kostað svo mikið. Allt það sem við vöruðum við í nefndaráliti minni hluta viðskiptanefndar á þeim tíma hefur komið á daginn.

Ég vil leyfa mér að vitna í nokkur orð máli mínu til stuðnings. Í nefndarálitinu kemur fram, með leyfi forseta:

„Einnig kom fram að engar áætlanir liggja fyrir um hvernig staðið verði að lækkun stofnfjár. Augljós hætta er á að eftir slíkar aðgerðir verði hér í landinu nær eingöngu ríkissparisjóðir með veikan rekstrargrundvöll sem erfitt verður fyrir ríkið að losna út úr aftur.“

Það er allt saman komið á daginn. Í þessu frumvarpi kemur fram að af þeim tíu sparisjóðum sem til eru núna eru fimm ríkissparisjóðir, tveir bankasparisjóðir, þ.e. sparisjóðir í eigu stórs viðskiptabanka, og svo eru þrír sparisjóðir, þ.e. Sparisjóður Höfðhverfinga, Sparisjóður Strandamanna og Sparisjóður Suður-Þingeyinga. Þetta er afleiðingin af stefnu hæstv. ríkisstjórnar í sparisjóðamálum. Við sitjum uppi með ríkissparisjóði sem hafa ekki burði til að gera nokkurn skapaðan hlut. Og ekki var farið í það sem við bentum á í nefndarálitinu að taka þyrfti á; skýrar skilgreiningar, rekstrarumhverfi sparisjóðanna, tengsl við heimasvæði, gagnsæi í reglum um stofnfjáreigendur, hverjir geti orðið stofnfjáreigendur, stjórnkerfi sparisjóðanna, atkvæðavægi stofnfjárhlutar, og bara á heildina litið framtíð sparisjóðakerfisins. Þess í stað eru menn búnir að vera í mjög sérkennilegum málum þegar kemur að þessu öllu saman. Það sérkennilegasta er framganga núverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, í málefnum Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur. Ég vek athygli á því að erindi liggur fyrir í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um rannsókn á þeim málum þar sem tilgreind eru lagabrot. Ekki er farið eftir lögum um Bankasýsluna, ekki er farið eftir lögum um fjármálafyrirtæki, það er allt saman tilgreint, það liggur allt fyrir. Hvað hefur hæstv. ríkisstjórn gert í því? Hvað eru hv. stjórnarþingmenn búnir að gera í þeirri nefnd?

Erindinu sem þeir fengu í nóvember á síðasta ári hefur verið stungið undir stól. Það er allt tekið fram fyrir það mál. Þeir hafa ekki einu sinni þrek í að reyna að mótmæla því sem þar kemur fram, sem að vísu eru allt saman staðreyndir, hæstv. ríkisstjórn hefur alveg þorað að fara gegn staðreyndum fram til þessa. En þessi merkilega eftirlitsnefnd stingur þessu öllu undir stól. Þess vegna sitjum við uppi með það að hér er enn einn kostnaðurinn út af í besta falli óvönduðum vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar.

Ég vek athygli á því að allar þær ræður sem við höfum heyrt núna um að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar séu í málþófi, því að þeir voga sér að ræða málið, þær ræður voru líka fluttar þegar þetta handónýta mál um sparisjóðina, sem er núna lög frá Alþingi, var flutt í júní 2009. Nú kemur hæstv. ríkisstjórn og segir með þessu nýja frumvarpi: Allt það sem við sögðum í júní 2009, allt það sem við gerðum var tómt rugl. Þetta frumvarp er staðfesting á því. Þetta frumvarp er ekki frá stjórnarandstöðunni. Þetta frumvarp er frá hæstv. ríkisstjórn. Þó má segja að það sé gott að hún hafi séð að sér. En lítið hafa hv. þingmenn lært því að við erum búin að vera undanfarna daga í nákvæmlega sömu sporum í öðru máli. Við höfum verið að benda á einstaklega illa unnið mál svo vægt sé til orða tekið, þ.e. um Stjórnarráðið, sem mun koma í ljós, nákvæmlega eins og með sparisjóðina, að mun ekki nýtast neinum og mun ekki gera neitt annað en koma kostnaði á skattgreiðendur landsins. Ég spái því, ekki af því að ég sé einhver Nostradamus, ég þekki bara hv. stjórnarþingmenn, að við munum heyra margar ræður þar sem við erum sökuð um að vera með málþóf, vegna þess að við komum til með að benda á augljósa vankanta sem allir geta séð sem lesa texta hæstv. ríkisstjórnar, og skiptir engu hvort ræðan verður í fimm mínútur, sjö mínútur eða lengur. Ásökun um málþóf mun verða það eina sem kemur frá hæstv. ríkisstjórn.

Varðandi sparisjóðina skiptir máli í því eins og öðru að vera ekki með neina rómantík. Sparisjóðir eru fyrirtæki sem verða að hafa rekstrargrundvöll. Þau verða að skila hagnaði og eftirspurn verður að vera eftir þjónustu þeirra. Við höfum fram til þessa ekki búið til slíkt umhverfi og löngu fyrir bankahrun neituðu menn að horfast í augu við þá staðreynd að hefðbundinn rekstur sparisjóðanna gekk mjög illa. Það er augljóst að hagnaður og staða sparisjóðanna var til komin út af því að þeir áttu eignir í öðrum félögum sem síðan reyndist nú ekki vera mikil eign þegar á hólminn var komið.

Það er hins vegar mjög mikilvægt að við höfum eins fjölbreyttan fjármálamarkað og kostur er í okkar fámenna þjóðfélagi. Ég held að afskaplega mikilvægt sé að við göngum ekki fram með, eins og hæstv. ríkisstjórn hefur gert á skipulegan hátt, að drepa litlar fjármálastofnanir. Það eru málefnaleg rök fyrir því að sparisjóðirnir, þar sem gengið hefur best, þekki mjög vel heimasvæði sín. Þó að það hafi verið kostur hvað smæðina varðar þá hefur það augljóslega verið galli líka og menn þurfa að líta til þessa þegar þeir skoða málefni sparisjóðanna.

Hér er í rauninni gert ráð fyrir að sparisjóðirnir verði hlutafélög. Það er auðvitað einn þáttur málsins. Síðan er gert ráð fyrir að þeir skilgreini heimasvæði en fram kom í nefndinni að það getur verið mjög vítt. Hægt er að skilgreina landið sem heimasvæði og hægt er að skilgreina næstu lönd líka sem heimasvæði, svo það stoppar sparisjóðina ekkert í að fara í útrás ef svo ber við.

Við höfum ekki fengið þá kynningu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd en mér finnst hins vegar, miðað við þau gögn sem ég hef varðandi þá vinnu sem er gerð á vettvangi sparisjóðanna, að menn líti raunhæfar á málið en gert hefur verið áður. Miðað við mínar bestu upplýsingar og koma fram á glæru sem ég hef frá kynningarfundi, sem ég komst því miður ekki á, er gert ráð fyrir að sparisjóðirnir verði ekki í því að þjóna stórum fyrirtækjum, verði ekki fjárfestingarbanki, ekki eignastýring og ekki í tryggingarekstri. Þeir verði fyrst og fremst í innlánum, útlánum og kortaútgáfu. Í kynningunni er gert ráð fyrir að hlutverk sparisjóðanna sé að vera hornsteinn í héraði, veita einstaklingum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum hagkvæma almenna fjármálaþjónustu á sínu starfssvæði sem byggir á staðbundinni þekkingu, persónulegum viðskiptasamböndum og umhyggju fyrir nærsamfélaginu. Einnig er gert ráð fyrir að þeir verði sameinaðir þannig að um verði að ræða nokkra sparisjóði og gert er ráð fyrir Vestfjörðum, Norðlendingum, Þingeyingum, Vestmanneyingum og Norðfirðingum. Ég held að skynsamlegt væri að fá kynningu á þessari stefnumótun í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Það á við þetta eins og allt annað, virðulegi forseti, að mjög hættulegt er — alveg sama um hvaða þjónustu er að ræða, ég tala ekki um jafnmikilvæga þjónustu og þessa — ef það eru bara tveir til þrír aðilar sem sinna henni og fjölbreytnin nákvæmlega engin.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er án nokkurs vafa, og þurfti ekki mikið til, bót frá þeim lögum sem eru núna. Frumvarpið er áfellisdómur hæstv. ríkisstjórnar yfir hæstv. ríkisstjórn, það er það. Ég held að þeir hv. þingmenn sem tóku þátt í umræðunni síðast af hálfu stjórnarliða ættu að skoða ræður sínar, kannski til að reyna að læra af því. Og þegar við förum í vinnuna á næstu vikum að hafa það kannski í huga að hlusta á varnaðarorð, vinna hlutina almennilega en ekki eins og hæstv. ríkisstjórn gerði í þessu máli með ómældum kostnaði fyrir skattgreiðendur landsins. Ef einhver heldur því fram að vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar í málefnum sparisjóðanna hafi ekki kostað neitt, hafi ekki komið niður á neinum þá er það fullkominn misskilningur.