140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvaðan hæstv. ráðherra hefur þær upplýsingar að ég vilji ekki ræða stjórnmál í sögulegu samhengi. Ég hef alltaf verið til í það og er svo sannarlega til í það. Sérstaklega hef ég gaman af því að fara yfir afstöðu Vinstri grænna og einkanlega fyrir bankahrunið, af því að hér hafa menn komist með þá mýtu í gegn, m.a. í gegnum mjög vilhalla fjölmiðla sem við höfum aðeins rætt hér, að þeir hafi varað við einhverju fyrir hrunið. Það hefur ekkert slíkt komið fram en þeir voru í forustu fyrir lífeyrissjóðum og bankaráðum sem eru núna hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar Vinstri grænna og það er sjálfsagt að fara yfir hvað þeir gerðu til að afstýra bankahruninu. Ég held að það sé eitthvað sem við ættum að fara yfir.

Ef við viljum fara lengra aftur er það náttúrlega enn þá meira spennandi og mikilvægt að gera það en ótrúleg þöggun hefur verið í gangi varðandi vinstri hreyfingar á Íslandi. Ég nefni bækur um bæði Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn, sem er fyrirrennari VG og Samfylkingarinnar, og ég tala nú ekki um Alþýðubandalagið. Ég er mjög mikill áhugamaður um þessa hluti og vil nota tækifærið og hvetja til umræðu um þetta. Ég held að það væri afskaplega mikilvægt að fara almennilega yfir þessa hluti, og ég veit ekki hvaðan menn fá þá hugmynd að sá sem hér stendur hafi ekki áhuga á að ræða það.

Varðandi það að þetta frumvarp hafi verið svo gott til að skýra stöðu stofnfjáreigenda þá held ég að það sé líka í besta falli afskaplega góð sögufölsun. Þetta fór eins og bent var á, frumvarpið varð til þess að hér urðu til ríkissparisjóðir sem enginn vissi hvað átti að gera við. Ég vona að hæstv. ráðherra átti sig á því að afleiðingin af því frumvarpi sem hæstv. ríkisstjórn er að leggja fram verður sú að hér verða nær eingöngu, nema með örfáum undantekningum, hlutafélagasparisjóðir. Ef hæstv. ráðherra áttar sig ekki á því hefur hæstv. ráðherra ekki kynnt sér málið mjög vel.