140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:45]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil svara þessu kannski með almennum hætti vegna þess að við freistuðumst til að fara í dálítið tog um meginlínur í stjórnmálum. Þegar við erum að tala um að koma á einhverju varanlegu fyrirkomulagi á fjármálakerfið á Íslandi er auðvitað mikilvægt að um það ríki sem mest sátt og hún sé sem breiðust til þess að tryggja að það kerfi, rétt eins og önnur kerfi í samfélaginu, búi ekki við óundirbúnar og gríðarlegar sveiflur eftir því hver heldur um stjórnvölinn hverju sinni. Ég vísa í því efni til skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra um framtíðarskipan fjármálakerfisins sem er auðvitað ekki unnin af ráðuneytinu einu saman heldur með víðtæku samráði, m.a. samráði við hv. stjórnarandstöðu. Hvort í þeirri stefnumótun er vikið beinlínis að þeim sértæku spurningum sem hér koma fram er ég ekki viss um en hins vegar eru þar lagðar meginlínur að því er varðar framtíðarsýnina í þessu efni. Og ég árétta að mér finnst mikilvægur sá grunntónn sem kemur fram hér í umræðunni sem ég tel að geti verið forsenda þess að sátt geti náðst um góða niðurstöðu á grundvelli frumvarpsins.