140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:48]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum náttúrlega, eins og hér hefur ítrekað komið fram undanfarna mánuði og missiri, ekki alveg á venjulegum tíma í íslensku samfélagi. Við erum að freista þess að ná stöðugleika í efnahagsmálum eftir mjög alvarlegt efnahagshrun. Því erum við í raun og veru og öll fjármálafyrirtæki að vinna úr misónýtum eignasöfnum og misflókinni stöðu, hvert og eitt, þannig að við erum ekki að tala um beina afstöðu til þess sem hv. þingmaður talar um hér á meðan við erum einfaldlega að ná því að halda sjó gagnvart stóru línunum.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um dreifingu valds almennt þá er ég sammála honum um það. Ég tel að fjölbreytni á fjármálamarkaði sé mikilvæg og yfirleitt sé það alltaf mikilvægt í viðskiptum að fjölbreytni ríki, fákeppni er til vansa og til hins verra fyrir almenning, og almannahagsmunirnir mæla með valddreifingu almennt og þar held ég að við getum verið sammála.