140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

763. mál
[15:02]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Hér ræðum við enn og aftur málefni tryggingarinnstæðusjóðsins, gamals kunningja, og með þessu frumvarpi erum við að festa bráðabirgðalausn á ónýtu kerfi í lög. Eftir stendur að við þurfum að finna varanlega lausn á þessu máli. Við höfum mörg verið dugleg við að reyna að hreyfa við þessu máli og benda á ýmsa möguleika eins og til dæmis einhvers konar endurtryggingakerfi, stærri fjölþjóðlega sjóði, að innstæður verði forgangskröfur varanlega þannig að við þyrftum ef til vill ekki þessa sjóði. Hjá Evrópusambandinu stendur yfir vinna við að finna lausn á þessu máli og mér finnst afskaplega mikilvægt að við blöndum okkur í það. Við höfum reynslu af því hvernig það er að fá heilt bankakerfi í hausinn og við eigum að bjóða fram krafta okkar.

Það módel sem við erum með, þrír stórir bankar og einn tryggingarinnstæðusjóður, gengur ekki upp frekar en ég og þingmennirnir Pétur Blöndal og Mörður Árnason ákvæðum að stofna tryggingafélag. Ef eitthvað kæmi fyrir mundum við ekki geta borgað hvert öðru það tjón sem við kynnum að verða fyrir, tekið höggið, og það var akkúrat það sem gerðist.

Annað slæmt í þessu er kerfisgalli, þ.e. þegar fjármálafyrirtæki falla á annað borð þá fellur ekki einn lítill sparisjóður heldur falla þau í kös þannig að það er algerlega vonlaust að þetta gangi upp. Það þarf að finna varanlega lausn á þessu og við þurfum að blanda okkur í þá vinnu.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál en það er mér mjög hugleikið og ég vil brýna menn til verka.