140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

réttarstaða einstaklinga með kynáttunarvanda.

736. mál
[15:18]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda en frumvarp þetta er samið af nefnd um réttarstöðu transfólks sem skipuð var í mars 2011. Verkefni nefndarinnar var að gera tillögur um úrbætur í málefnum transfólks með hliðsjón af áliti umboðsmanns Alþingis og tillögu til þingsályktunar um réttarbætur fyrir transfólk sem lögð var fram á 138. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu.

Gerð frumvarpsins er í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en þar skuldbindur ríkisstjórnin sig til að huga að réttarbótum í málefni transgender fólks í samræmi við ábendingar umboðsmanns Alþingis.

Það er í sjálfu sér hægt að hafa langt mál um aðdragandann að þessu frumvarpi, það á sér langa sögu, m.a. þetta álit umboðsmanns. Það er líka vísað til alls kyns mannréttindayfirlýsinga og -sáttmála sem við eigum aðild að og því mikilvægt að við sinnum þessu máli. Þingsályktunartillagan var flutt á sínum tíma án þess að ná afgreiðslu en 1. framsögumaður var hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir. Breið samstaða var um að þetta mál yrði lagt fram og hlyti framgang.

Hæstv. forseti. Helstu gallar á núverandi framkvæmd hér á landi hvað varðar stöðu fólks með kynáttunarvanda er í fyrsta lagi að meðferð og greining einstaklinga með kynáttunarvanda og ákvörðunarvald um hvort einstaklingar séu hæfir til kynleiðréttandi aðgerða er á höndum sömu aðila. Æskilegt er að aðskilja þessi tvö hlutverk og tryggja umfjöllun um málefni transfólks á tveimur stigum.

Í öðru lagi er ákjósanlegt að skjóta lagastoð undir stjórnsýsluframkvæmd Þjóðskrár Íslands um kynleiðréttingar og nafnbreytingar einstaklinga með kynáttunarvanda.

Markmið frumvarpsins er að gera nauðsynlegar úrbætur á löggjöf hér á landi til að skýra réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda. Þótt þessi hópur hafi notið læknismeðferðar og skilnings íslenskra stjórnvalda er brýnt að réttarstaða þeirra sé skýr í lögum. Helstu efnisatriði frumvarpsins eru því eftirfarandi:

Kynáttunarvandi er skilgreindur sem upplifun einstaklings frá unga aldri um að hann telji sig hafa fæðst í röngu kyni og óskar að tilheyra hinu kyninu. Kynleiðréttandi aðgerð er skilgreind sem leiðrétting á líffræðilegu kyni með skurðaðgerð. Lögð er áhersla á að ferill hvers einstaklings hvað varðar heilbrigðisþjónustu og stjórnsýslu við leiðréttingar á kyni og nafnbreytingar komi sem gleggst fram í frumvarpinu. Gert er ráð fyrir að einstaklingar leiti fyrst til teymis á Landspítalanum, teymis um kynáttunarvanda sem hefur umsjón með greiningu og viðurkenndri meðferð einstaklinga með kynáttunarvanda. Að lokinni 18 mánaða meðferð, þar af 12 mánaða reynslutímabili í gagnstæðu kynhlutverki og að uppfylltum öðrum skilyrðum getur viðkomandi sótt um staðfestingu sérfræðinefndar landlæknis um kynáttunarvanda um að hann tilheyri gagnstæðu kyni. Hlutverk sérfræðinefndarinnar er að staðfesta að viðkomandi tilheyri gagnstæðu kyni og við á hvort hann teljist hæfur til kynleiðréttandi aðgerðar. Eftir að einstaklingur hefur hlotið slíka staðfestingu nýtur hann allra þeirra réttinda að lögum sem skráð kyn ber með sér, samanber 7. gr. frumvarpsins. Um skráningu kynleiðréttingar og nafnbreytingar í þjóðskrá er fjallað í 8. gr. og er að mestu gert ráð fyrir sömu stjórnsýsluframkvæmd og nú tíðkast.

Í 9. gr. er kveðið á um hvernig fara skuli með erlendar ákvarðanir um kynleiðréttingar og nafnbreytingar einstaklinga með kynáttunarvanda. Mælt er fyrir um óbreytta réttarstöðu barns gagnvart foreldri sem fengið hefur staðfestingu á að það tilheyri gagnstæðu kyni, samanber 10. gr. frumvarpsins.

Að lokum, hæstv. forseti, er í 11. gr. fjallað um hvernig bregðast skuli við þeim aðstæðum þegar einstaklingur sem hlotið hefur staðfestingu sérfræðinefndar um kynáttunarvanda vill hverfa aftur til fyrra kyns.

Undirbúningur að gerð frumvarpsins var sá að skipuð var sérstök nefnd þar sem áttu sæti fulltrúar velferðarráðherra, innanríkisráðherra, embættis landlæknis, fulltrúar frá Mannréttindaskrifstofu Íslands og frá hagsmunasamtökum transfólks. Valið stóð um hvort setja ætti sérstök heildarlög eða fella þetta inn í önnur lög og niðurstaðan varð sú að setja sérstök heildarlög eins og hér eru lögð fram í frumvarpsformi.

Ég vona að þetta frumvarp nái vel utan um og tryggi réttarstöðu þess hóps sem hér er um fjallað. Það er löngu orðið tímabært og skiptir miklu máli að skýr ákvæði séu í lögum um réttindi þessa hóps og ég treysti á að málið fái vandaða og fljóta meðferð í þinginu þannig að við getum leiðrétt þetta í samræmi við þann vilja sem kom fram í þingsályktunartillögunni og í þeirri vinnu sem undirbúningshópurinn hefur unnið nú þegar.

Ég hef gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og leyfi mér að leggja til við hæstv. forseta að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar og til 2. umr.