140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

réttarstaða einstaklinga með kynáttunarvanda.

736. mál
[15:54]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það þakklæti sem hér hefur komið fram í máli hv. þingmanna til hæstv. ráðherra fyrir að hafa lagt þetta mál fram, svo og þess fólks sem sat í starfshópnum við að móta grundvöll þessa frumvarps, það lagði á sig mikla vinnu.

Hér erum við að tala um frumvarp til laga um mannréttindi til handa litlum hópi sem við skiljum kannski ekki svo vel eða höfum ekki svo mikla þekkingu á þörfum þeirra og því miður fylgja oft fordómar því að skilja ekki og vonandi erum við að stíga skref til að koma í veg fyrir slíka fordóma.

Hér er enn eitt frumvarpið sem lagt er fram til að fagna margbreytileika mannflórunnar. Það er sjálfsagt og eðlilegt að viðurkenna það að manneskjur eru eins fjölbreytilegar og þær eru margar og sjálfsagt að viðurkenna það að allir þegnar hvers samfélags eiga að geta lifað og átt full mannréttindi og notið fullrar mannhelgi.

Ég þakka þær ábendingar sem hér hafa komið fram og mun hv. velferðarnefnd taka tillit til þeirra. Mér finnst ábending um nafnabreytingar t.d. nokkuð sem þarf að skoða, svo og þær ábendingar sem fram hafa komið um að kynna sér löggjöf í Suður-Ameríku og hegningarlögin á Íslandi.

Mér finnst skipta mjög miklu máli að hér erum við með heildarlög um þennan málaflokk eða um málefni þessa litla hóps sem þarf svo á því að halda að staða hans sé vernduð. Við erum bæði að tala um læknisfræðilega meðferð og réttarstöðu, ég held að það skipti mjög miklu máli.

Ég vona að sú umræða sem kemur til með að fara fram í meðferð þingsins á þessu máli muni skapa heilbrigða og eðlilega umræðu um stöðu fólks með kynáttunarvanda í íslensku samfélagi.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að við ættum að leggja allt kapp á það að ljúka þessu máli á þessu þingi. Málið er afar vel unnið. Þegar hafa margir fengið tækifæri til að koma með umsagnir um málið og ég held að við getum unnið það vel og þokkalega hratt.

Við megum ekki gleyma því að þetta er enn eitt frumvarpið sem er lagt fram þar sem mannleg reisn er í raun og veru markmiðið, að allir þegnar þessa lands geti staðið þannig að mannleg reisn þeirra fái notið sín.