140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

267. mál
[16:03]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Allsherjarnefnd hefur fjallað um breytingu á lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Við samþykktum lögin á þingi á síðasta ári en síðan kom í ljós að ákveðnir hnökrar voru á málinu að okkar mati. Með því frumvarpi sem við ræðum nú er brugðist við nýlegum dómi Hæstaréttar í máli sem var vísað frá Hæstarétti þar sem í þeim lögum sem ég nefndi og við samþykktum í fyrra, um nálgunarbann og brottvísun af heimili, var hvorki að finna sérstaka heimild til að kæra úrskurð héraðsdómara til æðra dómstigs né hefði hinn kærði úrskurður fallið undir kæruheimildir 192. gr. laga um meðferð sakamála.

Í þessu frumvarpi er því mælt fyrir um að við lög um nálgunarbann og brottvísun af heimili bætist ákvæði þess efnis að kæra megi úrskurð dómara samkvæmt lögunum til æðra dómstigs og við þá málsmeðferð gildi ákvæði laga um meðferð sakamála.

Við umfjöllun nefndarinnar var málið sent til umsagnar og fengust margar ágætisábendingar. Ein þeirra, sem olli svolítilli umræðu í nefndinni, var hvort ekki ætti að hafa það þannig að kæra frestaði ekki framkvæmd dómsins, úrskurði héraðsdóms. Við fórum mjög gaumgæfilega yfir þetta atriði og ég ætla að leyfa mér að lesa það, með leyfi forseta, sem stendur í nefndarálitinu því að þar kemur skýrt fram hver varð síðan afstaða nefndarinnar:

„Við umfjöllun um málið var lagt til að við frumvarpið bættist ákvæði þess efnis að kæra á úrskurði héraðsdóms frestaði ekki framkvæmd hans. Nefndin bendir á að í 2. mgr. 15. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili er kveðið á um að réttaráhrif úrskurðar héraðsdóms miðast við birtingu hans nema dómari ákveði annað.“ — Þetta skiptir miklu máli. — „Þannig er heimild fyrir dómara til að ákveða að niðurstaða úrskurðar hans taki gildi síðar, t.d. á meðan málið er til meðferðar fyrir Hæstarétti. Ef bætt yrði við ákvæði um að kæra úrskurðar héraðsdóms frestaði ekki framkvæmd hans ætti það ekki aðeins við í þeim tilfellum þegar héraðsdómur staðfestir ákvörðun lögreglustjóra um nálgunarbann eða brottvísun af heimili heldur einnig ef héraðsdómur hafnar slíkri ákvörðun. Ef slíku ákvæði yrði bætt við gildandi lög yrðu réttaráhrif úrskurðar héraðsdóms um synjun nálgunarbanns eða brottvísunar af heimili strax virk og því gæti sá sem þegar hefur verið vísað brott af heimili samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra farið aftur inn á heimili þann tíma sem málið er í kærumeðferð fyrir æðri dómi.“

Það þótti okkur óásættanlegt. Þess vegna leggjum við til, þrátt fyrir annars ágætar ábendingar, að frumvarpið verði samþykkt.

Undir nefndarálitið skrifa Björgvin G. Sigurðsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Magnús Orri Schram, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Eygló Harðardóttir og Birgitta Jónsdóttir.