140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ánægð með yfirlýsingu hv. þingmanns um að hann vilji vinna þetta í samstarfi enda er það reynsla mín af minni annars stuttri veru í fjárlaganefnd að þar er ákaflega gott samstarf og þó að við séum ekki alltaf sammála um alla hluti er vilji til að mynda samstöðu um þau grundvallarprinsipp sem við viljum leggja til grundvallar meðferð ríkisfjármála.

Varðandi það að ég beiti mér í því að við tökum málið inn til okkar þá vil ég segja þetta: Málið er á forræði fjármálaráðherra og það er sérstakur verkefnisstjóri yfir verkefninu. Þetta er gríðarlega umfangsmikið verkefni og ég teldi óráð að nefndin færi eiginlega að taka það út úr ráðuneytinu og til sín. En ég er sammála hv. þingmanni að við þurfum að við þurfum að meðhöndla þetta mál með þeim hætti að allir flokkar vilji standa að því saman og ég endurtek það bara að ég tel að nú sé komið að því að við þurfum að fá frekari kynningu á því hvar málið er statt og ræða með hvaða hætti við viljum sjá þetta til að allir flokkarnir getið staðið að þessu saman. Að einhverju leyti er ég að svara spurningu hv. þingmanns neitandi en ég vonast þó til að hann skilji að það er ekki þvert nei. Ég lýsi yfir miklum vilja til samstarfs og ég tel að til þess að lögin feli í sér raunverulegar breytingar þurfi allir flokkar að koma að vinnunni (Forseti hringir.) og vera sammála þeim áherslum sem þar eru.