140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[16:20]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Áður en ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar vil ég segja að ég held að það sé góð ábending sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson kom með, að það sé vænlegra til árangurs til lengri tíma litið ef mál sem lögð eru fram eru studd af öllum flokkum. Ég leyfi mér að skilja orð hv. þingmanns á þann hátt.

Það er ekki mikill ágreiningur um það á milli fjármálaráðuneytisins og fjárlaganefndar, eins og klárlega má sjá í lokafjárlögunum og þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í hv. fjárlaganefnd. Ég tel því mikilvægt að við náum skynsamlegri lendingu til að þetta hafi einhverja þýðingu fyrir framtíðina því að markmiðið með þessari vinnu er að við förum að vinna ríkisfjármálin með allt öðrum hætti en gert hefur verið hingað til.

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2010. Nú er maí 2012. Það er mjög sérstakt að vera að ræða lokafjárlög 2010 á miðju ári 2012 þar sem teknar eru stórar og miklar ákvarðanir um stofnanir varðandi með hvaða hætti fara á með fjárheimildir yfir áramótin 2010–2011. Rekstrarárið 2011 er liðið þannig að við erum í raun með tvö ár í hálfgerðu limbói. Þá getur maður spurt sig þeirrar spurningar hvernig það virkar fyrir Alþingi, fyrir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra, að gera breytingar á því sem hér er rætt. Það er mjög sérstakt hvernig er að þessu staðið og auðvitað er það eitt af markmiðunum með þessum breytingum á fjárreiðulögum að þetta muni færast í eðlilegra horf þannig að núna mundum við í síðasta lagi vera að ræða til að mynda lokafjárlög fyrir árið 2011. Sennilega eru þetta síðustu lokafjárlögin sem þetta þing samþykkir ef ekki verður breyting á því að það verða kosningar næsta vor og það er ekkert sjálfgefið að lokafjárlög fyrir árið 2011 verði kláruð fyrr en á næsta kjörtímabili sem er auðvitað mjög sérstakt.

Nú mun ég fara yfir nefndarálit minni hlutans.

Í fjárlögum 2010 var gert ráð fyrir að tekjujöfnuður ársins yrði neikvæður um 98.843 millj. kr. en hann reyndist vera neikvæður um 123.285 millj. kr. samkvæmt ríkisreikningi 2010. Frumjöfnuður samkvæmt ríkisreikningi er neikvæður um 84.437 millj. kr. eða um 5,5%. Í skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013 var gert ráð fyrir að frumjöfnuður yrði neikvæður um 3% af landsframleiðslu. Árangur við stjórn ríkisfjármálanna er því tæplega helmingi verri en upphaflega var stefnt að.

Fjárheimildir í lok ársins 2010 eru neikvæðar um 22.696,6 millj. kr. Breyting þeirra sundurliðast á eftirfarandi hátt, þ.e. stærstu liðirnir:

18,6 milljarðar eru fluttir frá fyrra ári. Fjárlög ársins 2010 voru upp á 560 milljarða, fjáraukalögin gerðu ráð fyrir afgangi upp á 900 millj. kr., lokafjárlög upp á tæpar 900 millj. kr. þannig að fjárheimildir alls sem gert var ráð fyrir voru 580 milljarðar. Niðurstaða ríkisreiknings er hins vegar 602 milljarðar sem er neikvæð staða miðað við það sem stefnt var að upp á 22,7 milljarða. Ég tel það að sjálfsögðu háalvarlegt mál að stefnt skuli vera að því að reka ríkissjóð fyrir 22,7 milljörðum minna en niðurstaða ríkisreiknings gerir ráð fyrir.

Þessi mikli umsnúningur snýr einkum að 33 milljarða kr. gjaldfærslu á framlagi sem ríkissjóður veitti í fjáraukalögum til að styrkja eiginfjárstöðu Íbúðalánasjóðs. Minni hlutinn gagnrýnir hvernig staðið var að kynningu á fjárbeiðninni en í henni var gert ráð fyrir að framlagið yrði eignfært en það var gjaldfært vegna fjárhagsstöðu sjóðsins. Nauðsynlegt er að Alþingi séu veittar réttar upplýsingar um fjárhagsstöðu opinberra aðila þannig að fullt samræmi sé á milli fjárheimilda og reiknings hvað þetta varðar.

Þá vekur athygli að ekki var farið með halla Byggðastofnunar með sambærilegum hætti og Íbúðalánsjóðs þó svo að um sambærileg mál væri að ræða. Fjársýsla ríkisins hefur staðfest að gæta hefði átt samræmis.

Í umframútgjöldunum vegur þyngst gjaldfærsla á framlagi ríkissjóðs á fjáraukalögum 2010 sem var ætlað að efla eiginfjárstöðu Íbúðalánasjóðs um allt að 33 milljarða kr. þannig að hún gæti orðið allt að 5% af áhættugrunni sjóðsins við árslok 2010 og að sjóðnum yrði þar með gert kleift að mæta afskriftaþörf vegna útistandandi lánveitinga og áhrifum af ráðstöfunum sem kynnu að verða gerðar vegna skuldavanda heimilanna. Við uppgjör ríkisreiknings var ákveðið að gjaldfæra framlagið í heild vegna stöðu sjóðsins. Er því ljóst að Alþingi voru ekki veittar réttar upplýsingar um stöðu hans við afgreiðslu laganna. Þá ber einnig að hafa í huga að stofnfjárframlög fela ekki í sér gjaldheimild þar sem markmiðið með því að veita þau er að mynda eign hjá þeim sem fær framlagið. Þegar framlagið var veitt var eiginfjárstaða Íbúðalánasjóðs neikvæð um 25 milljarða kr. og hefði því verið eðlilegt að mati Ríkisendurskoðunar að eignfæra 8 milljarða kr. en það var ekki gert. Þá fékk Byggðastofnun á sama tíma 1 milljarðs kr. framlag á fjáraukalögum til að efla eiginfjárstöðu stofnunarinnar, en eigið fé hennar var neikvætt um 498 millj. kr. Það framlag var eignfært þó að gæta hefði átt samræmis við Íbúðalánasjóð. Það er því mat minni hlutans að vinnubrögð við framsetningu þessara eiginfjárframlaga í ríkisreikningi hafi ekki verið nægilega vönduð.

Staða fjárheimilda í árslok er neikvæð um 22.696,6 millj. kr., eins og ég hef komið að áður, eða sem svarar til 3,9% af heildarfjárheimildum ársins. Hinni neikvæðu stöðu má skipta upp í 30.519 millj. kr. afgangsheimildir og 53.215,6 millj. kr. umframútgjöld. Helstu afgangsheimildir í árslok eru svokölluð ófyrirséð útgjöld upp á 2,9 milljarða, vaxtagjöld ríkissjóðs upp á 2,1 milljarð, ofanflóðasjóður upp á 1,5 milljarða, Framkvæmdasjóður aldraðra upp á 886 millj. kr. og Háskóli Íslands upp á 881 millj. kr. Það gerir samtals 8,4 milljarða.

Af samtals 30,5 millj. kr. afgangsheimildum í árslok eru 8,4 milljarðar eða 27,5% á þessum fimm fjárlagaliðum en helstu umframgjöld skiptast með eftirfarandi hætti: Íbúðalánasjóður, sem áður er getið, upp á 33 milljarða, afskriftir skattkrafna upp á 5 milljarða, Landspítali upp á 2,9 milljarða, lífeyrisskuldbindingar upp á 2,8 milljarða, Sjúkratryggingar upp á 2 milljarða og fjármagnstekjuskattur upp á 1,6 milljarða.

Gert er ráð fyrir að 39.155,7 millj. kr. gjöld umfram fjárheimildir falli niður nettó. Það skiptist þannig að 8.043,1 millj. kr. eru afgangsheimildir og 47.198,8 millj. kr. eru umframgjöld einstakra fjárlagaliða. Þar vegur þyngst 33.000 millj. kr. vegna Íbúðalánasjóðs. Árið 2009 voru hins vegar fluttar nettóafgangsheimildir að fjárhæð 18.603,6 millj. kr. og hefur nettóflutningur fjárheimilda því lækkað á milli ára. Í fylgiskjali 1 í frumvarpinu kemur nánar fram hvernig jákvæðar og neikvæðar stöður skipast á einstaka fjárlagaliði.

Minni hlutinn vekur athygli á eftirfarandi gagnrýni Ríkisendurskoðunar í endurskoðunarskýrslu ríkisreiknings 2010, með leyfi forseta:

„Umframútgjöld Sjúkratrygginga Íslands stafa af því að áform um sparnað sem lágu til grundvallar fjárlögum gengu ekki eftir. Snemma á árinu kom í ljós að hæpið væri að forsendur fyrir áætluðum sparnaði myndu ganga eftir, svo sem að hægt yrði að semja um lækkun á gjaldskrá vegna heilbrigðisþjónustu sem keypt er af sjálfstætt starfandi heilbrigðisstéttum. Samt var ekki ráðist í annars konar sparnað til þess að vega upp á móti þessu. Þar sem slíkar ákvarðanir hefðu kallað á reglugerðarbreytingu liggur fyrir að velferðarráðuneytið ber ábyrgð á því að ekki var gripið til ráðstafana til að halda rekstri Sjúkratrygginga innan fjárheimilda. Ekki var heldur sótt um viðbótarfjárveitingar vegna þessa á fjáraukalögum 2010.“

Minni hlutinn telur afar brýnt að ráðuneytið veiti upplýsingar um með hvaða hætti það hyggst taka á fyrrgreindri ábyrgð.

Þá kem ég að kjarna málsins. Þegar verið er að samþykkja fjárlög er spurningin: Er verið að fara eftir fjárlögum eða ekki?

Það var einmitt bent á það við afgreiðslu fjárlaga 2010 og það kom mjög skýrt fram á fundi fjárlaganefndar þegar forstöðumenn Sjúkratrygginga Íslands komu á fund fjárlaganefndar. Þá bentu þeir á að fjárlögin sem lagt var til að yrðu samþykkt fyrir árið 2010 mundu ekki ganga eftir nema farið væri í mjög miklar aðgerðir og breytingar á lögum og reglugerðum til að þeim gæfist tækifæri til að halda fjárlögin og það var vitað. Þetta kom fram í ýmsum ræðum og ég benti á að að það væri tilgangslaust að samþykkja fjárlög sem fyrir fram væri vitað að mundu ekki standast, en samt var það mat ráðuneytisins á þeim tíma að þau ætti að samþykkja. Þess vegna kemur sú harða gagnrýni frá Ríkisendurskoðun um að tilgangslaust sé að samþykkja fjárlög ef ekki eigi að fara eftir þeim. Það er mjög sérkennilegt þegar við ræðum þetta sérstaka mál að þessar upplýsingar lágu fyrir þegar fjárlögin voru samþykkt. Það er mjög mikilvægt fyrir þingið að fara aðeins yfir þetta.

Í frumvarpinu styðst fjármálaráðuneytið við þá vinnureglu að árslokastaða fjárlagaliðar fellur niður ef útgjöld hans ráðast með beinum hætti af öðrum lögum en fjárlögum. Því er litið svo á að lögbundnum eða samningsbundnum framlögum verði ekki stýrt með framlagi fjárlaga en um leið birtist hér veikleiki í fjárlagagerðinni. Fjárlög marka í þessum tilfellum ekki útgjaldarammann heldur sérlögin og eru fjárlög í þeim tilvikum ekki það stjórntæki sem þau þurfa að vera. Að mati minni hlutans þarf að breyta fyrirkomulaginu á þann hátt að ekki sé heimilt að greiða meira úr ríkissjóði en ákveðið hefur verið í fjárlögum og viðbótarfjárheimildum sem samþykktar eru fyrirfram af Alþingi. Því þyrfti að ákveða með hvaða hætti framlög sem sérlög ákvarða hærri en fjárlög skerðast áður en til greiðslu þeirra kemur. Einnig gerir þetta kröfu um aukin gæði áætlana fjárlaga frá því sem nú er þannig að fjárlög gefi sem gleggsta mynd af útgjaldaþörf ríkisins.

Það er gríðarlega mikilvægt að tekið verði til umræðu þegar farið verður að semja ný fjárlög hvar fjárlögin gilda og hvar ekki. Það er algerlega óþolandi að sett séu sérlög trekk í trekk sem ekki er hægt að hafa neina yfirsýn yfir hvað á að ráðstafa miklu fé úr ríkissjóði. Þannig er verið að skuldbinda ríkissjóð um ákveðnar heimildir sem ekki eru í fjárlögum og auðvitað gefur það skakka mynd af rekstri ríkisins.

Að þessu sinni fór fjárlaganefnd mjög ítarlega yfir frumvarpið. Var tekið úr því úrtak og fyrirspurnum beint til viðkomandi ráðuneyta. Þá var aðallega farið yfir þá liði sem sneru að svokallaðri 10% reglu sem á að virka með þeim hætti að maður má ekki færa fjárheimildir umfram 10% á milli ára og safna síðan upp í það á að minnsta kosti þremur árum og mest 4% á ári. Það þarf að koma því í mikið fastari skorður en verið hefur, en eftir þessa yfirferð með fjármálaráðuneytinu og Ríkisendurskoðun fannst mér að það hefði svo sem flest verið útskýrt en auðvitað þarf að reyna að takmarka þetta eins mikið og hægt er og þetta á að heyra til undantekningartilfella.

Það var hins vegar einn liður sem kom fram í þessari yfirferð og skoðun í hv. fjárlaganefnd og vakti athygli okkar en þar var lagt til að auka útgjöld um 28 millj. kr. og við það gerum við alvarlegar athugasemdir. Í raun og veru er það algerlega óþolandi og ólíðandi að búið sé að ráðstafa peningum árið 2010 sem Alþingi er að taka ákvörðun um við afgreiðslu lokafjárlaga í maí 2012. Það eru ekki boðleg vinnubrögð, virðulegi forseti.

Í ljós kemur að gert er ráð fyrir 28 millj. kr. í lokafjárlögum til stuðnings við fiskeldi. Forsaga málsins er sú að í frumvarpi til fjárlaga 2008 segir að myndast hafi sjóður sem nemi 170 millj. kr. og er því lagt til að honum verði öllum varið til rannsókna og þróunar á fiskeldi. Fyrrgreindar 28 millj. kr. eru vaxtatekjur sem safnast hafa fyrir á reikningum. Að fjármálaráðuneytið skuli nú leggja til við Alþingi að heimildir liðarins verði auknar samsvarandi sýnir að Alþingi heimilaði einungis 170 millj. kr. útgjöld á sínum tíma. Að mati minni hlutans hefði átt að skila vaxtatekjum til ríkissjóðs. Fjárheimild var sótt til Alþingis eftir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gaf loforð um styrkveitingar út á hana. Minni hlutinn telur ófært að framkvæmdarvaldið sæki um fjárheimild svo löngu eftir að útgjöld hafa verið ákveðin, það feli í sér óeðlileg vinnubrögð að sækja um viðbótarfjárheimild á lokafjárlögum eftir að ríkisreikningur hefur verið áritaður.

Ég verð að segja fyrir mína parta, virðulegi forseti, að mér blöskra svo þessi vinnubrögð að það er best að segja sem minnst. Það er náttúrlega algerlega óþolandi að við skulum standa hér og rífast um fjárlög og fjáraukalög upp á einhverja 100 þúsund kalla eða jafnvel 1 eða 2 millj. kr. Framkvæmdarvaldið kemur þannig fram gagnvart þinginu að það tekur sér heimild til að ráðstafa 28 millj. kr. og gerir um það samninga sem Alþingi á að samþykkja núna. Svörin eru einfaldlega þessi: Það er búið að árita ríkisreikning og þetta eru lokafjárlög. Það er ekki svo gott að eiga við þetta og í raun er búið að taka fjárveitingavaldið af þinginu með þessum hætti.

Mín skoðun er sú að ef vilji Alþingis stæði til að taka á þessu vandamáli tel ég að það væri hægt af því að það er ekki búið að samþykkja þetta í lokafjárlögum þó að þetta sé staðfest í ríkisreikningi, lokafjárlög eru reyndar þingskjalið með ríkisreikningnum. Við slík vinnubrögð gerir minni hlutinn alvarlegar athugasemdir og ég tel að í raun komi framkvæmdarvaldið þarna aftan að þinginu með því að standa svona að málum.

Við fengum yfirlit úr ráðuneytinu yfir hvernig þetta er gert. Ég get ekki lagt mat á hversu mikilvæg verkefnin eru og það kemur verkefnunum sem slíkum ekkert við en eðlilegt hefði verið að tekin væri ákvörðun hjá þinginu áður en gengið var til þessara samninga. Það vekur óneitanlega athygli að einn aðili fær 63 millj. kr. á árinu 2009, 2010 og 2011, það er Landssamband fiskeldisstöðva og það vekur ákveðnar spurningar hjá mér af hverju það er gert á sama tíma og verið er að skera niður á heilbrigðisstofnunum. En eins og ég sagði hef ég engar forsendur til að meta málið til hlítar því að auðvitað hefði það átt að fá eðlilega meðferð í þinginu en ekki að fara með það eins og gert var.

Það kemur líka fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og minni hlutinn tekur undir það sjónarmið að hinn daglegu og lögbundnu verkefni Seðlabankans og rekstur félags um eignasafn fari illa saman. Þeim ábendingum er beint til Seðlabankans að hann íhugi hvort það sé ekki í þágu hagsmuna bankans að selja tilgreindar eignir félagsins eða félagið í heild til aðila sem sérhæfa sig í slíkri eignaumsýslu. Búið er að setja svokallað eignasafn Seðlabankans inn í hlutafélag og menn hafa áhyggjur af því því að það er auðvitað ekki hlutverk Seðlabankans og samræmist ekki starfi hans.

Í frumvarpinu er fjallað ítarlega um kosti og galla markaðra ríkistekna. Minni hlutinn telur að draga eigi úr þessari mörkun eins og kostur er. Minni hlutinn telur að meginstefna skuli vera sú að markaðir tekjustofnar renni í ríkissjóð en síðan eigi að veita fjárframlög öll á fjárlögum enda draga markaðar tekjur mjög úr fjárstjórnarvaldi Alþingis. Hjá fjárlaganefnd er hafin vinna við frumvarp í samstarfi við fjármálaráðuneytið þar sem lagt verður til að markaðar tekjur verði lagðar af. Þrátt fyrir þessa vinnu er enn verið að mæla fyrir frumvörpum sem ganga gegn þessum markmiðum.

Þá kem ég inn á orðaskipti hv. þingmanna Höskuldar Þórhallssonar og Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur þar sem fram kom að það væri dálítið sláandi fyrir hv. þingmenn í fjárlaganefnd að sjá að enn skyldi vera mælt fyrir frumvörpum sem gengju þvert á þá vinnu sem samstaða væri um í fjárlaganefnd. Þá hugsar maður með sér hvort hugur fylgi máli hjá framkvæmdarvaldinu að fara í þessa vinnu og smíða þetta frumvarp. Hægt er að lesa mjög ítarlega um það í lokafjárlögunum frá fjármálaráðuneytinu og í því sem kemur frá Ríkisendurskoðun. Það taka allir undir það sem verið er að gera en framkvæmdarvaldið mælir samt enn þann dag í dag fyrir frumvörpum sem ganga gegn þeirri vinnu. Þess vegna er mjög mikilvægt að menn geri eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson benti á, að menn standi saman að því og það sé þá skuldbinding gagnvart framkvæmdarvaldinu um hvernig þetta skuli gert. Það mundi hafa þau áhrif sem til er ætlast því að markaðar tekjur í dag eru um 100 milljarðar í fjárlögunum, það eru um 20%. Það sem er verst við það og ekki er deilt um í hv. fjárlaganefnd eða fjármálaráðuneytinu (Gripið fram í.) er að staða stofnana er svo misjöfn. Það er mjög óréttlátt að þær stofnanir sem hafa markaðar tekjur fái inn sterka skattstofna og eru jafnvel með meiri útgjöld en gert er ráð fyrir í fjárlögum oft og tíðum á meðan aðrar þurfa að fara í niðurskurð og hafa ekki þessa stofna. Þá blandast sértekjurnar að sjálfsögðu inn í þetta líka. Viðkomandi stofnanir hækka kannski hjá sér gjaldskrána og taka fullt af sértekjum þar inn og þurfa á sama tíma ekki að skera niður á meðan stofnanir eins og til dæmis í heilbrigðisþjónustu geta ekki gert það. Ég get rétt ímyndað mér umræðuna hvort heldur á þinginu eða úti í þjóðfélaginu ef heilbrigðisstofnanir tækju ákvörðun um að hækka innritunargjöld eða komugjöld um kannski 500%, en það hafa ýmsar stofnanir gert. Þær hafa verið að hækka gjöldin allverulega til að skapa tekjur inn í reksturinn og blómstra á sama tíma og skorið er mjög harkalega niður í öðrum stofnunum. Það er auðvitað mjög bagalegt að svo sé.

Þetta fjallar fyrst og fremst um að maður hefur ekki fjárstjórnarvaldið á Alþingi. Maður getur ekki stýrt umfangi stofnananna vegna þess að tekjustofninn er þannig að mörkuðu tekjurnar koma inn og ef eitthvað kemur upp á er ekki hægt að bregðast við þeim áföllum og mun sem hugsanlega gæti orðið, sérstaklega ef munurinn er neikvæður. Ef mörkuðu tekjurnar skaffa ekki það sem ætlast er til fer verkefnið inn í fjáraukalög eða í lokafjárlög um hvernig reisa á viðkomandi stofnun eða rekstur við og það gengur ekki. Fjárstjórnarvald Alþingis er í raun og veru miklu minna og þess vegna er mikilvægt að þetta mál verði klárað í sátt og samstöðu. Það er mjög góður kafli í lokafjárlögunum frá ráðuneytinu um það hvernig standa á að þessu. Það er líka töluvert um það í skýrslu Ríkisendurskoðunar um það sem við höfum verið að ræða, þ.e. óréttlætið á milli stofnana, á milli þeirra sem þurfa að fara að fjárlögum og þeirra sem ekki þurfa þess. Það er kannski ágætt að rifja upp umræðu um Fjármálaeftirlitið við síðustu fjáraukalagagerð þar sem menn sögðu: Við erum með skattstofn sem við viljum fá og það eru 500 millj. kr. til viðbótar og þið hafið ekkert um það að segja. Þá er í raun og veru búið að taka fjárstjórnarvaldið frá Alþingi og auðvitað þarf að breyta því, ég tel ekki vera mikinn ágreining um það. Það sjá allir hversu mikilvægt það er. Það eykur þó ekki trúna á verkefninu þegar enn er verið að mæla fyrir frumvörpum sem gera ráð fyrir því að gengið sé á svig við það markmið sem unnið er að í fjármálaráðuneytinu og í hv. fjárlaganefnd.

Mig langar aðeins að fara yfir framlagningu lokafjárlaga og það þarf auðvitað ekki að fara mörgum orðum um að við skulum núna vera að ræða lokafjárlög fyrir árið 2010. Við skulum ekki gleyma því að þegar lokafjárlög eru samþykkt er það í raun og veru upphafið að rekstri viðkomandi stofnana og viðkomandi málaflokka í upphafi árs 2011. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu vonlaus vinnubrögð það eru, eða ég veit ekki hvaða orð ég á að nota yfir það, en þetta getur ekki gengið. Það sjá allir að það er vonlaust ef menn reka fyrirtæki og vita ekki stöðuna fyrr en einu og hálfu eða tveimur árum eftir að hún liggur fyrir, það getur ekki gengið.

Síðan þarf auðvitað að breyta meðferðinni. Það þarf að einfalda hana. Eitt af markmiðum þessa frumvarps, sem töluvert hefur verið rætt, er að það þarf að breyta færslu bókhaldsins þannig að menn sjái stöðuna eins og hún er á hverjum tíma og það þurfi ekki að taka allan þennan tíma. Til dæmis þarf að færa markaðar tekjur beint inn í ríkissjóð og síðan að setja allar stofnanir á fjárlagalið, þá verður þetta margfalt einfaldara, miklu skilvísara og gefur þinginu miklu meiri yfirsýn yfir það sem er að gerast.

Síðan er frumvarp til lokafjárlaga í raun bara þingskjalið með ríkisreikningnum sem slíkum og það þarf auðvitað að taka til alvarlegrar skoðunar að þegar búið er að gera ákveðnar breytingar í lokafjárlögum, þ.e. lokafjárlögin eru í raun og veru farin að virka sem aukafjáraukalög en þau eru oft gerð tveimur árum eftir að búið er að eyða fjárhæðunum. Og þó svo að þingið vilji bregðast við er kannski ekki svo hægt um vik vegna þess að búið er að ráðstafa fjármununum og það vita allir hvað það þýðir.

Ég ætla að aðeins að tala um vinnuumhverfið og yfirsýn hv. fjárlaganefndar og þingsins yfir ríkisfjármálin í heild sinni í ræðu minni um lokafjárlögin. Þar er mikið verk að vinna og sést kannski best á því að hér er verið að ræða lokafjárlög sem þýðir að afkoma ríkissjóðs er í rauninni 23 milljörðum verri en gert var ráð fyrir. Hér eru tveir hv. þingmenn í salnum og forseti þingsins sem situr í sínum stól. Það segir okkur líka kannski töluvert um þau vinnubrögð sem við þurfum að breyta. Meiri hluti hv. fjárlaganefndar fór til Svíþjóðar og skoðaði vinnubrögðin þar. Af því þurfum við að læra, þeim aga sem þar er í ríkisfjármálum því að við erum núna til að mynda að fjalla um veikleikann í fjárlögunum og þar eru töluvert stórar upphæðir á ferð.

Ég vék að því í máli mínu og það hefur komið fram að stærsta breytingin í fjárlögunum og umframkeyrslunni á árinu 2010 voru 32 milljarðar til Íbúðalánasjóðs. Núna liggur fyrir að væntanlega þarf að setja 10, 11, 12 milljarða inn í Íbúðalánasjóð á árinu 2012 til að rétta af eiginfjárhlutfall hans og síðan eigum við eftir að fá úrskurðinn gagnvart yfirfærslunni á SpKef yfir í Landsbankann. Fyrir utan 4,5 milljarða sem eru í útgjaldaukningunni í framkvæmd fjárlaga gætum við hæglega farið í 25–30 milljarða. Afkoma ríkissjóðs á þessu ári útgjaldalega séð gæti orðið þannig. Það er grafalvarlegt mál og er ekki deilt um mikilvægi þess að ná tökum á ríkisfjármálunum til að við þurfum ekki að borga þessa blóðpeninga í vexti. Ég vil líka minna á og það deilir enginn um það að þetta er mikilvægasta verkefni stjórnvalda í þessum efnum. Þá er líka mjög mikilvægt að menn átti sig á því að auðvitað þurfa uppfærðar upplýsingar sem verið er að vinna með að liggja fyrir og að ekki séu teknar ákvarðanir sem ganga þvert á það markmið þingsins að ná tökum á ríkisfjármálunum. Það er auðvitað grafalvarleg staða ef fjárlagahallinn verður mikill. Auðvitað vona ég að það verði ekki en því miður blikka viðvörunarljós yfir okkur og það er mikilvægt að á því sé tekið.

Þegar talað er um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum ætlum við að ná þeim jöfnuði að við eigum fyrir rekstri og vöxtum. En þá gleymist oft í umræðunni eða kemur alla vega ekki nógu oft fram að við eigum eftir að borga af lánum okkar, það er mikilvægt að við höfum afgang til þess að greiða niður lánin. Auðvitað getur maður ekki farið að tala um alvörurekstur á ríkissjóði fyrr en búið er að greiða niður þann stabba af lánunum sem nauðsynlegt er til að hægt sé að nota tekjur ríkissjóðs til að byggja upp þjóðfélagið og standa vörð um velferðarþjónustuna og heilbrigðismálin og þær grunnstoðir samfélagsins.

Ég vil nota síðustu mínútuna, virðulegi forseti, til að þakka öllum hv. þingmönnum í fjárlaganefnd og eins starfsmönnum nefndarinnar fyrir það góða og mikla samstarf unnið hefur verið við gerð þessa frumvarps til lokafjárlaga. Auðvitað blandast þetta saman þar vinnan við ríkisreikninginn, sem er nánast sama plaggið þó að það stemmi kannski ekki alveg, er unnin samhliða. En eins og ég hef áður sagt er frumvarp til lokafjárlaga bara þingskjalið. Þar hefur verið mjög góð samvinna og mikill vilji allra hv. þingmanna til að gera breytingar. Við megum hvergi slaka á í þeim efnum. Auðvitað er mikilvægt að við veitum framkvæmdarvaldinu aðhald og gerum því grein fyrir að þetta sé vilji þingsins ef það verður niðurstaðan. Það er alla vega vilji hv. fjárlaganefndar að framkvæmdarvaldið virði og vinni eftir því sem lagt er fram og hætti að fara gegn yfirlýstri stefnu og vinnu fjárlaganefndar, til að mynda með því að leggja fram frumvörp sem ganga í berhögg við það sem rætt er um og stefnt er að.