140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[16:52]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað mjög mikilvægt að það náist sátt og breið samstaða um að breyta fjárreiðulögunum og sérstaklega líka lögum sem snúa að mörkuðum tekjum. En mér hefur ekki fundist skorta á í fjárreiðulögunum — það skortir reyndar á gagnvart mörkuðu tekjunum, það þarf að taka þær út. Við höfum séð fullt af athugasemdum í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem sagt er: Forsætisráðherra gekk gegn fjárreiðulögum. Við höfum fengið slíkar ábendingar í skýrslum Ríkisendurskoðunar. Það þarf auðvitað að láta framkvæmdarvaldið fara eftir lögunum og að það taki ekki þessar ákvarðanir fyrir utan þingið, eins og við hv. þingmaður þekkjum báðir.

Þau vinnubrögð eru því miður ekkert nýmæli. Maður þarf ekki að lesa mörg fjárlög til þess. Ég gerði það fyrst eftir að ég kom inn á þingið 2009, þá las ég nokkur fjárlög aftur í tímann til að reyna að átta mig á þessu og svona hafa vinnubrögðin verið. Það endurspeglast líka oft og tíðum í vinnu hv. fjárlaganefndar. Við þurfum að stíga þetta skref og láta finna meira fyrir okkur. Við þekkjum umræðuna um þingsályktunartillöguna sem hv. fjárlaganefnd flutti öll um aðgang að upplýsingum. Það hefur ekki gengið mjög vel, við fáum að fara inn í einhverjar skýrslur og eitthvað slíkt. Það þarf auðvitað að efla sjálfstæði og starf nefndarinnar svo að við fáum það sem við viljum.

Svo er eitt dæmi um þessi vinnubrögð sem hv. þingmaður þekkir jafn vel og ég, það er það sem ég hef kallað frystihalameðferð. Þá tekur framkvæmdarvaldið ákvörðun um að frysta hala á einhverri stofnun eða með ákveðnum skilyrðum en sú ákvörðun kemur aldrei á þingskjali inn í þingið. Hún er bara tekin í fjármálaráðuneytinu og viðkomandi fagráðuneyti um að gera það þannig og kemur aldrei fram sem þingskjal. Eitt af því sem við erum að fjalla um í lokafjárlögum núna er til að mynda sá hali sem er á Landspítalanum upp á 2,9 milljarða. Fyrir liggur að þeir hafi staðið sig mjög vel í rekstri á undanförnum árum og þeim er gert að skilyrði að halda sig innan fjárlaga og þá eru ekki dregnir frá þeim þessir 2,9 milljarðar.