140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[17:19]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar hér áðan var reyndar minnst um dagskrárliðinn lokafjárlög heldur fabúleringar um fjárlög og vinnubrögð og eitthvað sem er að bögglast í kollinum á hv. þingmanni, en aðrir eru ekki alveg með á nótum hvað er að gerast.

Hv. þingmaður sagði þó eitt. Hann sagði að stjórnsýslan streittist á móti, og bætti við síðar í ræðu sinni að formaður fjárlaganefndar mundi ekki standa sig í stykkinu þegar á reyndi. Formaðurinn mundi guggna, hann mundi bogna á endanum undan ráðherra úr eigin flokki þegar kæmi að því að breyta til frekar en gert hefur verið í vinnu við fjárlagagerð, væntanlega vinnu við lokafjárlög og ríkisreikning og annað sem snýr að fjármálum ríkisins. Þetta finnst mér stór orð.

Mér finnst að hv. þingmaður eigi að útskýra hvar í stjórnsýslunni sé verið að streitast á móti því að laga vinnulagið og ná tökum á ríkisfjármálunum. Eru það embættismenn og þá hvaða embættismenn? Ráðuneytisstjórar? Er það fólkið á dekkinu? Hvar í stjórnsýslunni er verið að streitast á móti? Eru að mati hv. þingmanns einhverjir þeirrar skoðunar, sem hann hlýtur að þekkja af eigin raun, að vilja ekki að hlutirnir lagist?

Einnig vil ég biðja hv. þm. Höskuld Þórhallsson að útskýra frekar en hann gerði áðan þá vissu sína að ágætur formaður fjárlaganefndar muni ekki standa sig í stykkinu þegar kemur að gerð fjárlaga í haust og breyttum vinnubrögðum, t.d. varðandi fjárreiðulög o.s.frv. Þar finnst mér ómaklega að formanni fjárlaganefndar vegið.