140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[17:22]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Formaðurinn mun ekki þora, var orðrétt það sem hv. þingmaður sagði áðan. Ég óska eftir því að hann útskýri betur hvort það eigi við sérstaklega um formann fjárlaganefndar og þá hvers vegna, hvað í fari hv. formanns og hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur bendir til þess að mati þingmannsins að hún muni ekki þora þegar á reynir.

Eins og ég sagði áðan fjallaði hv. þingmaður minnst um lokafjárlögin sem eru þó ágætisniðurstaða og vísbending um hver undirliggjandi rekstur ríkisins var á árinu 2010, mjög góð vísbending um að rúmu ári eftir hrunið „svokallaða“, sem margir vilja nú kalla, hafi undirliggjandi rekstur og raunverulegur rekstur ríkissjóðs verið með ágætum. Hann skilaði yfir 10 milljarða afgangi frá því sem áætlað var. Raunverulegur rekstur ríkisins gerði það. Það sýnir að þær áætlanir sem við settum okkur fyrir fjárlög 2010, eftir að hafa rifið upp gildandi fjárlög á miðju ári 2009, stóðust og gott betur þrátt fyrir stanslausar hrakspár um annað, um að þetta mundi ekki ganga og við mundum ekki standa okkur. Annað hefur komið í ljós. Hv. þingmaður á líka að vera minnugur þess að jafnvel þótt við séum væntanlega nú í síðasta skipti að ræða um fjárlög án þess hafa gildandi rammafjárlög til að miða okkur við, því eins og hv. þingmaður veit mun það vera tekið upp á næsta ári, erum við samt að vinna eftir ákveðinni efnahagsáætlun, ákveðnum ramma sem við settum okkur í samstarfi við aðrar þjóðir. Hann erum við að halda að langstærstum hluta og miklu betur en nokkurn mann óraði fyrir.

Við erum ekki í sólarlandaferð upp á krít í þessum stjórnarmeirihluta. Við erum ekki í þeim hópi sem kemur við afgreiðslu fjárlaga á hverju hausti og hvetur til aukinna útgjalda heldur þvert á móti.