140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[17:35]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Í stuttu andsvari gefst ekki tími til að svara öllu sem að manni er beint. Mér tókst þó á nokkrum sekúndum að benda á að staða ríkissjóðs væri í rauninni mun verri en þingliðar meiri hlutans vildu vera láta.

Eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kom að þá var í fjárlögum 2010 gert ráð fyrir að tekjujöfnuður ársins yrði neikvæður um 98,8 milljarða kr. en hann reyndist neikvæður um 123,3 milljarða samkvæmt ríkisreikningi 2010.

Frumjöfnuður samkvæmt ríkisreikningi er neikvæður um 84 millj. kr. eða 5,5%. Í skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013 var gert ráð fyrir að frumjöfnuður yrði neikvæður um 3% af landsframleiðslu. Eins og kemur skýrt fram í nefndaráliti okkar sem stöndum að því í minni hlutanum er þessi árangur í rauninni helmingi verri en upphaflega var stefnt að.

Mig langar að vekja athygli á skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum vegna þess að í þeirri skýrslu koma fram þau markmið sem ríkisstjórnin ætlaði sér að ná. Ég man eftir því þegar þessi skýrsla var rædd að sumum fannst markmiðin ekkert sérstaklega háleit. Undirliggjandi grunnur ríkisfjármála, atvinnulífið og íslenska krónan mundu gera það að verkum að við ættum að ná okkur fyrr út úr kreppunni en ríkisstjórnin vonaðist sjálf til. En jafnvel þó að markmiðin hafi verið lágstemmd hefur ríkisstjórninni ekki tekist að ná þeim og þar liggur hundurinn grafinn.

Mig langar að benda á töflu sem Hagstofan lagði fram þar sem verðbólgan átti að vera komin niður í 1,6% á þessu ári. Á síðustu 12 mánuðum hefur hún mælst yfir 6% sem sýnir í rauninni hversu langt ríkisstjórnin er frá því að ná þeim markmiðum sem að var stefnt. Síðasta haust áttaði ríkisstjórnin sig á því að hún mundi ekki ná fram þeim markmiðum sem hún setti sér varðandi heildarjöfnuð vegna þess að hún talaði í sífellu um frumjöfnuð, sem gefur ekki rétta stöðu til kynna því að þar eru fjármagnsliðir ekki teknir með í reikninginn, þá breytti hún markmiðum sínum. Nú eiga þessi markmið að nást á næstu árum og við höfum þá skýrslu einnig til grundvallar. En þegar kemur að því að dæma ríkisstjórnina, hvort hún hafi staðið sig vel eða illa, þá verður einmitt skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013 lögð til grundvallar. Þar liggur hundurinn grafinn.

Það er líka ágætt að benda á, af því að við vorum að ræða aga í ríkisfjármálum þó að hv. þm. Björn Valur Gíslason vildi gera lítið úr þeirri umræðu, að agi er einfaldlega meginmálið. Við erum að reyna að koma á aga í ríkisfjármálum og við erum að athuga hvort það hafi tekist. Bæði skýrsla meiri hlutans og minni hlutans fjalla í rauninni um það hvort við höfum náð fram tilætluðum aga. Við verðum að horfast í augu við það þegar við skoðum þær skýrslur sem liggja fyrir að fjárheimildum er ekki alltaf skipt rétt innan ársins og þess vegna sýnir dreifing fjárheimilda ekki útgjaldadreifingu fjárlagaliða. Þetta skekkir umræðuna, virðulegi forseti, og gerir hana því miður ómarkvissari.

Fjármálaráðuneytið nefnir 36 liði á fjárlögum í veikleikamati og í því mati eru 25 með útgjöld umfram heimildir. Þetta veikleikamat er talið endurspegla raunverulega veikleikaþætti í rekstri. Nú hefur fjármálaráðuneytið sjálft sett sér viðmið, hið svokallaða 10% viðmið, sem er því miður ekki alltaf farið eftir. Það sem ég vil hins vegar benda á er að þetta eiga að vera lög frá Alþingi, þetta eiga ekki að vera viðmiðunarreglur sem ráðuneyti setur. Þetta á að liggja kýrskýrt fyrir í lögum.

Þá kem ég að því sem ég hef áður nefnt í umræðunni, að jafnvel þótt eftirlitshlutverkið sé á hendi Alþingis skiptir kannski ekki öllu máli að efla það ef við setjum ekki raunveruleg viðurlög við því að fara fram úr fjárheimildum hvers árs. Ég held að þetta skipti gríðarlega miklu máli. Við ræddum það í fjárlaganefnd að þessi tæki vantaði einfaldlega og það að veita áminningu væri kannski það drastísk aðgerð að menn veigruðu sér við að fara þá leið. Þetta eru hlutir sem ég mundi vilja sjá í verðandi fjárreiðulögum og ég tel afar mikilvægt að við náum fram.

Það sem við verðum að horfast í augu við er að ráðuneytin hafa ekki gripið til nauðsynlegra aðgerða til að bregðast við veikleikum í rekstri. — Hv. þm. Björn Valur Gíslason bað mig að persónugera það fólk. Það geri ég aldrei, ég vil ekki persónugera það fólk, að sjálfsögðu ekki. — Ég ítreka að ég tel að framkvæmdarvaldið eða stjórnsýslan hafi allt of mikil völd umfram Alþingi. Það er ekki bara ég sem hef haldið því fram, í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis stendur það svart á hvítu að styrkja þurfi Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu. Samþykkt var þingsályktunartillaga af öllum flokkum um að þau skref yrði að stíga að styrkja Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég held að sú styrking fari fram innan fjárreiðulaga vegna þess að hið raunverulega vald liggur, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, í fjárheimildum.

Ég ætla svo sem ekki að hafa þetta mikið lengra í bili en mun að sjálfsögðu bregðast við fyrirspurnum ef þær koma.