140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[17:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé hverju þingi hollt að hafa þingmenn sem eru gagnrýnir á framkvæmdarvaldið og sérstaklega hið fjármálalega vald hverju sinni, þannig að ég fagna þeim ræðum sem hv. þingmenn hafa haldið hér í dag. Það sem þeir eru að ræða um er vandamál sem menn hafa glímt við lengi.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson telur að ekki sé hægt að framfylgja hófstillingu og temprun framkvæmdarvaldsins nema með einhverjum hætti að koma böndum á þá sem fara með framkvæmd fjárheimilda Alþingis og hann talar um viðurlög. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvernig viðurlög telur hann að dugi til þess að koma böndum á hina bersyndugu, þ.e. þá sem þá væntanlega ár eftir ár fara fram úr sem stjórnendur ríkisstofnana? Ég vildi gjarnan fá að skyggnast ofan í hugardjúp hv. þingmanns um það mál.

Þá mundi hann kannski líka svara þeirri spurningu: Hver er ábyrgur fyrir því, gæti verið, ef allt er skoðað og menn leita aftur til upphafsins, að það kynni að vera Alþingi sem ekki tæki nægilegt tillit til þarfa sumra mjög þýðingarmikilla stofnana? Ég spyr hv. þingmann um það, því að þetta er ekki mjög einfalt mál þó að ég hafi samúð með málflutningi hv. þingmanns.

Svo segi ég honum að það er rangt hjá honum að ríkisstjórninni hafi gengið seint að komast út úr kreppunni, kreppan er frá. Hv. þingmaður hefur væntanlega séð hagspá Arion banka, sem ég veit að hann hefur mikla trú á, sem kom út í gær. Þar les hann það, samkvæmt greiningardeild bankans, að hagvöxtur á þessu ári verður að mati bankans 3%, 4% á næsta ári. Það er það hæsta sem þekkist í Evrópu. Það heitir nú að komast í gegnum kreppu, frú forseti.