140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[17:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Nú veit hv. þm. Höskuldur Þórhallsson auðvitað að hann er að tala við ráðherra sem er yfir stofnunum sem hlutfallslega fæstar fara fram úr heimildum, af því að ég veit að hann þekkir fjárlögin. En þetta er ekki léttvægt mál fyrir mér, þetta er umræða sem ég hef tekið þátt í mjög lengi — mjög lengi með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni sem hér var á dögum með okkur einu sinni. Maður veltir því fyrir sér með hvaða hætti er hægt að beita eða afla heimilda til þess að reyna með einhverjum hætti að koma viðurlögum fram gagnvart þeim sem fara fram úr fjárlögum. Á þeim tíma veltu menn fyrir sér áminningu, já, og jafnvel uppsögnum. Það eru kostir og gallar við hvort tveggja.

Það sem mig fýsir að vita, af því að hv. þingmaður talaði af nokkrum þrótti um að það væri nauðsynlegt tæki að hafa viðurlög, hvers konar viðurlög er það sem hann telur að eigi að beita stjórnendur opinberra stofnana sem fara fram úr fjárheimildum? (Gripið fram í.) Ég er að veita andsvar, ég er að notfæra mér þann rétt sem þingsköp leyfa mér til að spyrja hv. þingmann út í ræðu hans. Hv. þingmaður talaði um viðurlög og mig fýsir að vita: Hver eru þau viðurlög sem hv. þingmaður vill beita til þess að ná fram því markmiði sínu eins og hann sagði ekki að refsa, heldur koma aga á ríkisfjármálin? Hver eru þau viðurlög sem hann telur heppileg til að beita gagnvart stjórnendum stofnana? Eru það áminningar? Mér fannst hv. þingmaður svara því játandi. Hvað ef þær duga ekki?