140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[17:51]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vandinn liggur í því að ráðuneytin beita ekki þeim heimildum sem eru til staðar. Ég held að þar liggi vandinn fyrst og fremst. Það þarf einfaldlega að skýra þau valdboð sem eru nú fyrir hendi þannig að það liggi algerlega kýrskýrt fyrir hvað eigi að gera ef forstöðumaður stofnunar fer ítrekað fram úr fjárlögum. Í dag er staðan þannig að ekki er farið eftir þeim heimildum sem eru til staðar. Ef það er reyndin mun ekkert gerast.

Ef hæstv. utanríkisráðherra hefði komið fyrr og hlustað á ræðu mínu þá viðurkenndi þar ég fúslega að þessi umræða hefur staðið lengi og að vandamálið snýr ekki að einum flokki, það snýr að öllum flokkum. Þess vegna vildi ég að allir flokkar legðu fram breytingar á fjárreiðulögum. En ég ætla að ítreka þau orð mín að ef við breytum þessu ekki á þessu þingi munum við aldrei breyta því. Ég er þeirrar skoðunar.

Ég hef fulla trú á formanni fjárlaganefndar, jafnvel þó að einhver hafi reynt að gera lítið úr þeirri trú minni. (Utanrrh.: Ekki … og ég hef.) Jú, jú, örugglega sömu. Ég benti hins vegar á að reynslan væri sú að þegar frumvörp kæmu frá ráðuneytinu væri tregða til þess að fara gegn því sem ráðherrann hefði lagt til. Það þekkir hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég veit að hann talaði um svokallað ráðherraræði þegar hann var hér í stjórnarandstöðu og mundi svo sannarlega vilja breyta því, og ég vona að hann hafi ekki skipt um skoðun þó að hann sitji hinum megin borðsins núna.