140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

tollalög.

367. mál
[17:53]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005.

Ekki mundi ég kalla þetta æsispennandi frumvarp, eflaust væri þó hægt að fjalla um það í löngu máli (Gripið fram í.) en ég ætla að hlífa þingheimi við því.

Það kemur fram og er viðurkennt fúslega í greinargerð með frumvarpinu að þetta frumvarp hafi verið lagt fram án nægilegs samráðs við hagsmunaðila og ber að fagna þeirri hreinskilni sem þar kemur fram af hálfu fjármálaráðuneytisins. Um það er það að segja að efnahags- og viðskiptanefnd taldi nauðsynlegt í upphafi umfjöllunar sinnar um þetta mál að fara þess á leit við tollyfirvöld að þau viðhefðu samráð við umrædda hagsmunaaðila í von um að það leiddi til ásættanlegrar niðurstöðu fyrir báða aðila. Þetta samráð lýtur að þeirri starfsemi sem hraðsendingafyrirtæki í landinu hafa haft með höndum á undanförnum árum, en það er eitt af meginákvæðum frumvarpsins að heimild tollmiðlara til að afhenda hraðsendingar til notkunar innan lands áður en tollskjöl eru látin tollstjóra í té verði felld brott. Ástæðan er sú að þetta fyrirkomulag hefur torveldað verulega tolleftirlit og taldi fjármálaráðuneytið nauðsynlegt að bregðast við því.

Fram hefur komið í umfjöllun nefndarinnar að í þessu máli vegast annars vegar á þörf fyrir aukið eftirlit með hraðsendingum, ekki síst með tilliti til skipulagðrar glæpastarfsemi, og hins vegar hagsmunir viðskiptalífsins af hraðsendingum, en þær hafa aukist hröðum skrefum í atvinnulífi okkar á liðnum árum og eru núna orðnar tæpur helmingur af almennum sendingum eða 42%.

Þetta samráð átti sér stað í kjölfar frumkvæðis efnahags- og viðskiptanefndar og aðilar lýstu þeim sameiginlega skilningi að því loknu að mikilvægt væri að þróa viðunandi eftirlit með hraðsendingum, eftir atvikum þannig að upplýsingar um kennitölur innflytjenda og sendenda, vörulýsingar o.fl., bærust inn í tollkerfið innan ákveðins tímaramma. Auk þess var viðurkennt mikilvægi þess að þegar innflutningur væri háður innflutningsskilyrðum tryggðu hraðflutningafyrirtæki að skilyrðum væri fullnægt áður en vara væri afhent innflytjanda.

Efnisbreytingin sem efnahags- og viðskiptanefnd leggur til í kjölfarið á þessu samráði er sú að 3. gr. frumvarpsins kveði á um að tollmiðlara verði heimilt að afhenda hraðsendingu til notkunar innan lands án greiðslu aðflutningsgjalda, enda láti hann tollstjóra tímanlega í té með rafrænum hætti upplýsingar um nöfn og kennitölur sendanda og innflytjanda auk upplýsinga um verðmæti, tegund og þyngd sendingar og setji tryggingu fyrir greiðslu aðflutningsgjalda.

Þetta er meginefni þeirra breytinga sem ég vil vekja athygli á í tengslum við þetta frumvarp. Ég vísa að öðru leyti í nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar. Fulltrúar allra flokka í nefndinni standa á bak við þetta álit að undanskildum Framsóknarflokknum en þeirra fulltrúi var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir álitið rita Helgi Hjörvar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Skúli Helgason, Tryggvi Þór Herbertsson, með fyrirvara, Lilja Mósesdóttir, Magnús M. Norðdahl og Jón Gunnarsson, með fyrirvara.