140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

stuðningur Hreyfingarinnar við ríkisstjórnina.

[13:42]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir boðið en sama og þegið. Hæstv. ráðherra sagði að ríkisstjórnin væri sammála mörgu því sem Hreyfingin tiltæki í yfirlýsingu sinni, það er alveg rétt enda spurði ég ekki að því. Ég spurði sérstaklega að þeim tveimur málum sem lúta að skuldamálum heimilanna og afnámi verðtryggingarinnar vegna þess að það eru þau skilyrði sem Hreyfingin setur. Það blasir við öllum að ekki hefur beinlínis verið á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að fara fram með þær aðgerðir. Ég hlýt því að spyrja hvort til standi að gera einhverjar breytingar þar á.

Reyndar þótti mér svar ráðherrans gefa það mjög sterklega til kynna að þessum málum yrði ekki lokið fyrir helgi og þá hlýtur næsta spurningin, reyndar ekki til ráðherrans heldur til þingmanna Hreyfingarinnar, að vera sú hvað þau gera í framhaldinu. Standa þau við stóru orðin? Hefur hæstv. ráðherra áhyggjur af því að hann þurfi jafnvel að treysta á flokksmenn ríkisstjórnarflokkanna ef til vantrausts kæmi?