140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

stytting námstíma til stúdentsprófs.

[13:57]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég minni á það sem ég sagði áðan, af því að hv. þingmaður nefnir bóknámsskólana, að Kvennaskólinn hefur þegar innleitt þetta kerfi og annar skóli, sem margir telja hefðbundinn, Menntaskólinn á Akureyri, er kominn mjög langt í að innleiða ný lög þannig að ég held að þar séu full færi. En það sem skiptir máli er að við náum ákveðinni sátt við skólasamfélagið. Starfandi hefur verið hópur þar sem sitja fulltrúar kennarasamtaka, framhaldsskóla og síðan mennta- og fjármálaráðuneytis sem eru að fara yfir þau mál. Það skiptir líka máli að við höfum verið að skera niður í framhaldsskólum en um leið ætlast til þess að þeir taki á sig mikla vinnu við að standa að innleiðingunni. Ég held því að mestu máli skipti að við náum sátt í þeim hópi um hvernig við stöndum að þessu máli. Þá er ég sammála hv. þingmönnum um að við getum séð fram á breytingar á annars góðu kerfi sem gerir það enn betra.