140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

nýr samningur borgar og ríkis um samgöngumál.

[14:33]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Það er gott að fá tækifæri til að ræða þetta merkilega verkefni í þingsal sem ég fagna mjög. Eins og ég sé þetta erum við í ákveðnum vítahring. Það er erfitt að taka þá ákvörðun að leggja bílnum þegar strætó gengur kannski brösótt, ég veit það af því að ég er með unglinga á heimilinu að það er varla að þeir geti farið niður í bæ úr Kópavogi og farið í bíó. Ef bíómyndin er lengri en hefðbundið er, ná þeir ekki strætó heim. Það er bara svoleiðis, og kannski ekki hægt að búa við slíkt. Mér finnst þetta eiginlega frábært framtak.

Annað þessu tengt er að hjólreiðar hafa aukist gríðarlega, sem er mjög jákvætt. Þar hefur Reykjavíkurborg sérstaklega stigið stórt skref í að bæta stígakerfið og hugsað það sem samgöngukerfi en ekki bara útivistarmöguleika fyrir borgarbúa, því að allt önnur hugsun þarf að liggja þar að baki. Við þurfum auðvitað stígakerfi til útivistar líka, þar má t.d. nefna leiðirnar með fram sjónum og fleira. En Reykjavíkurborg hefur hugað vel að stígakerfinu sem samgöngumáta sem mér finnst verulega gott. Það sem vantar enn þá er að hugsa um að tengja sveitarfélögin með stígakerfinu þannig að hægt sé að hjóla úr einu sveitarfélagi yfir í annað án vandkvæða.