140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

nýr samningur borgar og ríkis um samgöngumál.

[14:39]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að taka þessa umræðu upp á Alþingi. Það er mikið áhyggjuefni, þegar horft er til samgöngumála á næstu árum, ekki eingöngu á höfuðborgarsvæðinu heldur á landinu öllu, að búið er að fresta mörgum stórum og mikilvægum samgönguframkvæmdum sem átti að ráðast í.

Ég saknaði þess að ráðherra svaraði ekki alfarið þeim spurningum sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson beindi til hans. En það er annað sem er enn meira áhyggjuefni, nokkuð sem maður hefur séð núna þegar unnið hefur verið að samgönguáætlun. Þegar rýnt er í tölur um tekjur af umferð og útgjöld til samgöngumála má sjá að gert er ráð fyrir, samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2012, að tekjur af ökutækjum nemi 54 milljörðum kr. Það eru allar tekjur sem koma inn vegna ökutækja, þar af er gert ráð fyrir að tekjur af eldsneyti nemi 21 milljarði kr. Skatttekjur ríkissjóðs af eldsneyti hafa hækkað um 163% frá árinu 2008, þ.e. heildartekjur ríkissjóðs af eldsneyti. Í heildina hafa skattar á eldsneyti hækkað um 72%. En á sama tíma er gert ráð fyrir því að verja 15,7 milljörðum til samgöngumála og vegagerðar. Það sjá náttúrlega allir að þær tekjur sem ríkissjóður tekur inn af umferðinni, af bifreiðum, af almenningi í landinu, skila sér á engan hátt aftur til samgöngumála, hvort heldur er til almenningssamgangna, vegaframkvæmda eða þátta sem tengjast samgöngum yfir höfuð. Þetta er gríðarlegt áhyggjuefni. Með þessari þróun held ég að bilið þarna á milli sé að breikka frá því sem hefur verið. Minna fé rennur til samgöngumála og tekjur ríkissjóðs af umferðinni hækka. Þessi þróun og þetta bil sem þarna er að myndast og er að stækka ár frá ári getur ekki gengið áfram.