140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

Schengen-samstarfið.

[14:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir að taka þetta mál upp í þinginu. Eins þakka ég hæstv. innanríkisráðherra fyrir svörin.

Málin sem við fjöllum um eru auðvitað viðkvæm en þau eru mjög mikilvæg. Ég held að það sé hárrétt sem bent var á í umræðunni að þau hugsanlegu vandamál sem tengjast för fólks milli landa á Evrópusvæðinu eru ekki bundin við Schengen heldur hið Evrópska efnahagssvæði, því að staðreyndin er auðvitað sú, eins og hæstv. innanríkisráðherra nefndi, að með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu varð för fólks frjáls á milli landa, þar á meðal hingað til Íslands.

Við höfum núna tíu ára reynslu af þátttöku okkar í Schengen og það er eðlilegt að við endurmetum stöðuna í ljósi þeirrar reynslu. Ég hygg að það sé mikilvægt fyrir okkur að standa áfram að þessu samkomulagi, þessu samstarfi, einmitt vegna þess sem hæstv. innanríkisráðherra nefndi, að með því móti tryggjum við okkur aðgang að samstarfi löggæsluyfirvalda á þessu stóra svæði og eigum aðgang að upplýsingakerfum sem við mundum ekki hafa ef við værum ekki aðilar að Schengen. Lykillinn að baráttunni við glæpastarfsemi í dag er auðvitað upplýsingar.

Á hinn bóginn er ég þeirrar skoðunar að við þurfum að fara vel yfir hvernig við getum eflt þætti eins og landamæraeftirlit, eftirlit með skipulagðri glæpastarfsemi og annað þess háttar og hvernig við getum eflt þær löggæslustofnanir sem starfa á þessu sviði þannig að þær hafi bolmagn til að nýta sér þær upplýsingar sem fylgja kostunum að Schengen og geti hugsanlega yfirunnið ókostina.