140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

Schengen-samstarfið.

[15:04]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu og ráðherra fyrir svör hans. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa talað um mikilvægi þess að þessi mál séu sífellt til skoðunar af hálfu okkar Íslendinga. Það er mjög mikilvægt að við leitum allra leiða. Við sjáum það að bæði hér á landi og víða í nágrannalöndum eru uppi töluverðar áhyggjur af þróun mála.

Ég var til að mynda að glugga í pappíra frá Noregi, m.a. viðtal í norskum fjölmiðlum við háttsettan yfirmann lögreglunnar þar í landi. Hann lýsir auknum áhyggjum vegna sívaxandi straums frá Austur-Evrópu og vegna þess að alltaf er að aukast að menn framvísi fölsuðum vegabréfum, og hægt sé að fá fölsuð vegabréf á svörtum markaði í Eystrasaltslöndum fyrir 200–300 evrur. Það er því full ástæða til að hafa áhyggjur af þróun mála.

Eins og komið hefur verið inn á í umræðunni er að sjálfsögðu hægt að herða hér eftirlit innan Schengen-samstarfsins og ég held að full ástæða sé til að gera það, við sjáum það. Það er líka full ástæða til að kanna möguleikann á því hvort eðlilegt sé að endurskoða veru Íslands innan Schengen-samstarfsins. Burt séð frá því hvor leiðin er farin er mikilvægt að taka möguleika okkar til skoðunar og beita þeim aðferðum sem við höfum nú þegar eða þurfum að afla okkur með einhverjum hætti til að herða eftirlit á landamærum Íslands. Þær fregnir sem við fáum nú ítrekað og eru vaxandi í umræðunni á Íslandi, um erlend glæpagengi, sýna að full ástæða er til að skoða þetta, hvort heldur er endurskoðun á Schengen-samstarfinu eða að nýta betur þær heimildir sem við höfum innan þess.