140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

Schengen-samstarfið.

[15:11]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er alveg rétt að engin ástæða er til að gera lítið úr áhyggjum þeirra sem telja að Schengen-samstarfið valdi því að auðveldara sé fyrir þá sem hafa glæpsamleg markmið að leiðarljósi að koma hingað. Það er mikilvægt að bregðast við því með upplýsingum, með athugun og úttekt á stöðunni, af því að það er komin reynsla á þetta. Það kom fram áðan að kominn er góður áratugur síðan þáverandi utanríkisráðherra Halldór Ásgrímsson og þáverandi ríkisstjórn lagði til að Ísland gerðist aðili að Schengen. Rúmur áratugur er ágæt reynsla af slíku samstarfi og auðvelt að meta hverjir ágallarnir eru og hver er ávinningurinn.

Ávinningurinn er augljós á mörgum sviðum en það er engin ástæða til að draga í efa að það eru einnig ágallar og mikilvægt að bregðast við þeim með því, eins og ég nefndi áðan, að efla eigið eftirlit innan þessa samstarfs. Það að taka ákvörðun um að rjúka út úr samstarfinu, einfaldlega af því að við höfum séð skipulögð glæpagengi sækja hingað, alla vega tímabundið, væri óráð og óðagot. Það er engin ástæða til að taka slíkar ákvarðanir án þess að meta fyrst kalt hver sé reynslan af samstarfinu og hvort ekki sé hægt að bregðast við ágöllunum innan þess, af því að ávinningurinn af samstarfinu er mikill og augljós. Ég var sammála formanni Framsóknarflokksins á þeim tíma, Halldóri Ásgrímssyni, um að þetta væri heillaskref þó að þá lægi strax í kortunum að á samstarfinu væru ágallar. Við eigum að draga lærdóm af reynslunni og bregðast við með skynsamlegum og umfram allt yfirveguðum hætti.