140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

Schengen-samstarfið.

[15:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þó að ákvörðun sé tekin er ekki þar með sagt að ekki megi breyta henni um alla framtíð. Svona voru málin metin á sínum tíma þegar Ísland ákvað að ganga í Schengen og aðalrökin fyrir því voru þau að við Íslendingar þyrftum ekki að ferðast með vegabréf á milli landa, eins og það væri einhver stór ferðataska sem við þyrftum að hafa með okkur í ferðalögum. Það hefur síðan komið í ljós að vegabréfin verðum við samt að hafa þannig að þetta verður að skoða og þetta er alvörumál.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson talaði um að við mættum ekki reisa hér járntjald. Ég er ekki að tala um að við þurfum að reisa járntjald í kringum Ísland þó að við endurskoðum aðild okkar að Schengen. Ég tek sem dæmi það sem gerðist í líkfundarmálinu sem var mjög athyglisvert á sínum tíma. Þá var erlendum aðila vísað af landi brott og hann mátti ekki koma hér aftur, en hann kom nokkrum mánuðum seinna og þá á vegabréfi konu sinnar. Þarna vorum við til dæmis alveg varnarlaus gegn því að þessi dæmdi einstaklingur kæmi aftur inn í landið og engin úrræði til þess að taka til dæmis fingraför af honum. Þetta eru sömu áhyggjur og til dæmis lögreglumenn í Noregi hafa, eins og ég fór yfir í framsöguræðu minni.

Hæstv. ráðherra svaraði spurningum mínum og ég þakka fyrir það. Hann talar um að tímabært sé að styrkja eftirlit á landamærunum. Þess vegna spyr ég: Á hvern hátt ætlar hæstv. innanríkisráðherra að styrkja það eftirlit? Á að veita aukið fjármagn til þeirra aðila sem sjá um þessi mál fyrir okkur í dag og eins og lögreglan er að kalla eftir til þjálfunar og til aukins tækjabúnaðar? Eða er hæstv. innanríkisráðherra að tala um að við göngum alla leið og tökum upp okkar eigið vegabréfaeftirlit?

Að lokum, frú forseti, langar mig að spyrja hæstv. innanríkisráðherra á ný: Er verið að skoða í innanríkisráðuneytinu hvort taka eigi hér upp aðra kynslóð Schengen- upplýsingakerfisins?