140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[15:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 936 vegna máls nr. 376 sem varðar frávik í skattalegum efnum og snýr að styrkjum frá Evrópusambandinu til verkefna hér á landi. Um er að ræða styrki til ýmissa verkefna í löndum sem eru í aðildarferli, einkum þó verkefni á sviði sem varða byggðaþróun og atvinnusköpun. Það eru auðvitað verkefni sem við Íslendingar þurfum mjög á að halda að efla hér, ekki síst eftir þau áföll sem við höfum orðið fyrir.

Til að greiða fyrir því að erlendir styrkir til stuðnings og uppbyggingar hér á landi megi fást er nauðsynlegt að falla frá skattálögum á þá styrki sem hingað koma og þá ESB-verktaka sem vinna að þessum málefnum.

Það er niðurstaða meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar að þetta séu svo þörf og brýn verkefni að rétt sé að gera þetta frávik. Það er líka í samræmi við ýmsa alþjóðlega starfsemi sem hér hefur notið sérstakrar skattalegrar meðhöndlunar í ár og áratugi og sem veitt væri ef IPA væri ekki sett hér upp í formi styrkja, eins og niðurstaðan varð, heldur sem stofnun eins og hefur verið gert í öðrum umsóknarríkjum. Tilfellið er að þau sendiráð sem starfa hér á landi og ýmis önnur alþjóðleg starfsemi í íslenskri efnahagslögsögu, til að mynda starfsemi erlends herliðs á sínum tíma og ýmissa alþjóðastofnana, hafa notið sérstakra frávik frá íslenskum skattalögum þar sem innflutningur til slíkrar starfsemi, aðflutningsgjöld, tekjuskattur þeirra sem þar hafa starfað, virðisaukaskattur til þeirrar starfsemi og þar fram eftir götunum hefur allt verið meðhöndlað með sérstökum hætti.

Í öllum meginatriðum er hér um að ræða frávik sömu náttúru og eðlilegt að greiða þessari alþjóðastarfsemi leið með svipuðum hætti og annarri hefur áður verið greidd leið.

Áð álitinu standa auk mín þingmennirnir Lilja Rafney Magnúsdóttir, Þuríður Backman, Magnús M. Norðdahl og Skúli Helgason.