140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[15:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar sitt. Það er rétt að spara hv. þingmanni umfjöllun í ræðu sinni um það í hvaða röð mál eigi að koma til umfjöllunar í þinginu því að það á við um afgreiðslu málanna. Gert er ráð fyrir því að þingsályktunartillagan frá utanríkismálanefnd og frumvarpið til 2. umr. verði til umræðu hér í dag og komi síðan til atkvæðagreiðslu í framhaldinu og hafa þá bæði málin verið fullrædd, vona ég. (Gripið fram í.)

Hvað varðar þá sem starfa að þessum verkefnum er einfaldlega gert ráð fyrir því að meðferðin verði með sama hætti og verið hefur um aðra alþjóðastarfsemi. Það getur auðvitað verið viðhorf að almennt eigi að breyta þeim reglum sem eru um gagnkvæma skattlagningu á alþjóðastarfsemi í heiminum, en við getum ekki breytt þeim reglum einhliða á Alþingi heldur er það málefni sem hv. þingmaður verður að taka upp á öðrum vettvangi. (Gripið fram í.)