140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[15:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar og stundum nefndin öll hefur auðvitað beitt sér fyrir ýmsum aðgerðum í skattalegum efnum til ívilnana til að hvetja til tiltekinnar starfsemi. Skemmst er að minnast ívilnana gagnvart skapandi greinum sem góð samstaða náðist um á haustþinginu, breytingar á skattlagningu á bifreiðainnflutning sem hefur sannarlega ýtt undir og styrkt þann geira í atvinnulífi okkar og mætti áfram telja.

Hvað viðvíkur þessum verkefnum er það rétt hjá hv. þingmanni að þetta eru þróunarverkefni og þar á meðal eru ákaflega mikilvæg verkefni í kjördæmi hv. þingmanns á vegum atvinnuþróunarfélaga bæði á Suðurnesjum og Suðurlandi sem lúta að því að efla og styrkja þau svæði. Hér er bara verið að reyna að fá inn í landið erlent fjármagn til að styrkja góð íslensk verkefni og það eina sem við þurfum að gera til þess að fá það er að gefa eftir skatttekjur sem við ella hefðum aldrei fengið.