140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ísland á aðild að margs konar evrópskum áætlunum um styrki á ýmsum sviðum og hefur sem betur fer oft og tíðum verið býsna duglegt við að afla sér slíkra styrkja sem sannarlega eru settir fram til að greiða fyrir evrópskri samvinnu, þó að mér finnist það ekki alls kostar viðeigandi hjá hv. þingmanni að kalla slíkt mútufé. (Gripið fram í: Hvað annað?) Hér eru þeir styrkir sem einkum um ræðir, það eru styrkir til atvinnuþróunar og byggðaþróunar vegna þess að það er mat Evrópusambandsins að í byggðamálum séum við Íslendingar því miður mjög skammt á veg komnir og það sé full ástæða til að styrkja ýmis verkefni á því sviði. Ég er þess fullviss að það verður ríkur stuðningur við það í þinginu að greiða fyrir því að efla starfsemi og styrkja verkefni á sviði bæði atvinnuþróunar og byggðaþróunar í landinu.