140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[15:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og fagna því að hann lýsi því yfir að hann sé ekki andvígur skattaívilnunum sem væru sambærilegar við aðrar alþjóðastofnanir gagnvart IPA-styrkjunum. Ég held að við förum þá bara efnislega yfir það við 2. umr. með hvaða hætti, ef einhverjum, gengið er lengra en almennt gerist um þessa samninga.

Hitt skýtur nokkuð skökku við að þeir þingmenn sem iðulega hafa talað fyrir nauðsyn þess að greiða fyrir fjármagni í atvinnuþróun og uppbyggingu í landinu, ekki síst frá útlöndum, skuli leggjast af slíku offorsi gegn því að greitt sé fyrir milljarðastyrkjum sem koma frá Evrópu og verður ekki betur séð en að allur sá málatilbúnaður sé fyrst og fremst áróður byggður á afstöðu þeirra til Evrópusambandsins en ekki til efnis málsins eða hagsmunamats fyrir Ísland og Íslendinga. Ég tel ótvírætt, virðulegi forseti, að hagsmunamat Íslendinga sé einfalt í þessu máli, (Forseti hringir.) það er gott.