140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar hér gegn betri vitund. Við þurfum ekkert að flokka dýra- og fuglategundir í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins, við þurfum ekkert að gera það.

Fuglatilskipunin og öll sú hugsun er svo langt frá því sem við erum með hér sem mest getur verið. Hvers vegna í ósköpunum þurfum við þá að setja 3,7 milljónir evra í það verkefni? Ég hvet hv. þingmann til að lesa rýniskýrslu utanríkisráðuneytisins um umhverfismál, þar kemur þetta allt fram. Þar kemur fram frá sérfræðingum utanríkisráðuneytisins hvað þetta er gríðarlega ólíkt og hvað við þurfum að gera mikið ef við verðum aðilar að Evrópusambandinu. Þess vegna er þetta til komið. Þetta er aðlögunarferli.

Við flytjum, virðulegi forseti, matvæli til Evrópusambandsins og það hefur ekki verið nefnt fram til þessa að við höfum ekki staðið nógu vel varðandi þau mál sem hann taldi upp. Þetta er fullkominn útúrsnúningur.

Ég vil fá að vita, virðulegi forseti, vegna þess að þetta eru aðlögunarstyrkir og við vitum það báðir: Er þetta aðlögunarferli eða ekki? Ef þetta er ekki aðlögunarferli, er þá ekki rétt að við tökum út þessa styrki? Við getum líka nefnt túlkanámið og annað slíkt. Er þá ekki rétt, ef hv. þingmaður heldur því fram að ekki sé um aðlögun að ræða, að taka út það sem snýr að aðlögun?

Ég vildi hins vegar velta því upp, af því að hv. þingmaður talaði um kalt hagsmunamat og að fá bara peningana, frábært, ef Rússland, Kína, einhver Afríkuríki eða ríki hvaðanæva úr heiminum kæmi með peninga hingað til að styrkja utanríkisráðuneytið, einhverjar opinberar stofnanir eða væri með þróunarstyrki fyrir (Forseti hringir.) einhver svæði — er það þá skoðun hv. þingmanns að við ættum að taka á móti þeim eins og við tökum á móti þessu?