140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Spurt er: Er þetta aðlögunarferli eða ekki? Ég held að ég leiði þá orðræðu hjá mér því að staðreyndin er einfaldlega sú að Ísland hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu. Það gerði þjóðþing þess, Alþingi, með meiri hluta atkvæða. Það er alveg ljóst að til þessara styrkveitinga hefði aldrei komið ef það hefði ekki verið lýðræðisleg niðurstaða meiri hluta alþingismanna að sækja um aðild.

Hitt tel ég jafnljóst, að mjög margt af þeirri vinnu sem hér er verið að styrkja mun nýtast Íslendingum hvort sem af aðild verður eða ekki. Ég hlýt að minna hv. þingmann á að í tengslum við virkjanaframkvæmdir til að mynda, ekki síst á hálendinu, þá alveg óháð aðild okkar að fuglatilskipuninni, erum við aðilar að ýmsum alþjóðasamningum svo sem Bernarsamningnum og öðrum alþjóðlegum skuldbindingum sem lúta að því með hvaða hætti er búið að fuglalífi hér og með hvaða hætti vistgerðir eru verndaðar. Það hefur oftsinnis tafið fyrir umhverfismati á slíkum stórum framkvæmdum að við, fá í stóru og dreifbýlu landi, búum ekki að nægilega góðum grunnrannsóknum í þessu efni. Ég stend algjörlega við þá fullyrðingu að talsverður hluti þeirra rannsókna sem fara fram með þessum styrkjum muni vera grunnrannsóknir og gögn sem nýtast okkur hvort sem af aðild verður eða ekki.

Ég fagna því að við getum stutt öflug og góð verkefni af þessu tagi í samstarfi við samstarfsþjóðir okkar, við helstu markaðslönd, aflað gjaldeyris til þarfra hluta og veitt sjálfsagðar skattaívilnanir í tengslum við það eins og við höfum veitt öðrum alþjóðastofnunum, veitum sendiráðum o.s.frv. Það er í samhengi við (Forseti hringir.) þann jákvæða stuðning sem ríkisstjórnin vill sýna erlendri fjárfestingu og annarri (Forseti hringir.) atvinnusköpun í landinu og er á dagskrá í mörgum þingmálum hér síðar í dag.