140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[17:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er stórt spurt. Þetta var athyglisverð upptalning hjá hv. þingmanni. Ég verð að segja eins og er að það er svolítið erfitt að átta sig á því hvert þingmenn Vinstri grænna eru að fara varðandi þetta. Hins vegar er alveg ljóst að mikið er á sig lagt til að halda stjórnarsamstarfinu áfram og mikið lagt upp úr því.

Þar af leiðandi hlýtur að vera niðurstaða mín að þessar sviptingar til og frá hjá þingmönnum Vinstri grænna, hvernig þeir nálgast og afgreiða málin, hafi einfaldlega verið til þess að halda ríkisstjórninni saman. Ekki mátti einn kisinn fara út af heldur varð að smala þeim öllum á sama stað þannig að þetta gengi allt vel fyrir sig.

Það er að sjálfsögðu athyglisvert að þingmenn og flokkar skuli meta stjórnarsamstarfið svo mikilvægt að þeir fórni helsta stefnumáli sínu til að halda ríkisstjórninni saman, ríkisstjórn sem þessir þingmenn hafa margir hverjir sjálfir gagnrýnt mjög harkalega fyrir ákveðna hluti og aðgerðir og aðgerðaleysi. Þar af leiðandi verður niðurstaða mín kannski jafnvel sérkennilegri þegar við förum að hugsa um af hverju menn hafi ekki hreinlega staðið í lappirnar.

Það er alveg ljóst að á kjörtímabilinu hefur leikurinn í kringum þetta mál verið spilaður þannig að aldrei komi upp sú staða að það ógni stjórnarsamstarfinu eða geti fellt ríkisstjórnina. Það er greinilega meira virði fyrir forustu Vinstri grænna að halda stjórnarsamstarfinu en að halda í málin.