140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[17:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef í raun ekki mikla vitneskju um áhuga á verkefnum sem tengjast þessum styrkjum. Ég veit hins vegar að ýmsir aðilar í sveitarstjórnum í Norðvesturkjördæmi — kjördæmin eru svo stór, það eru ein þrjú landshlutasamtök innan Norðvesturkjördæmis. Ég veit að tvenn landshlutasamtök í kjördæmi þess sem hér stendur hafa sýnt einhvern áhuga á þessum verkefnum og verið að spá í þau, en ég held að þau hafi ekki fengið neitt. Ein landshlutasamtök hafa ekki sýnt áhuga á þessum verkefnum og hafa talið óeðlilegt að þau væru styrkt á þennan hátt.

Fyrst við erum að ræða þetta tel ég líka nauðsynlegt að það komi fram ég hef sett spurningarmerki við það og verið svolítið undrandi yfir því hvernig Samtök sveitarfélaga hafa nálgast allt þetta ferli. Mér finnst eins og Samtök sveitarfélaga hafi kokgleypt beituna sem er sett fyrir sveitarfélögin í þessu ferli öllu án þess að skoða myndina til enda. Það er mjög sorglegt að mínu viti.

Það má velta fyrir sér hvort áhuginn hefði hugsanlega verið meiri ef þessir peningar tengdust verkefnunum ekki beint. Hann væri það örugglega. Það er líka mikilvægt að halda því til haga að þó svo að við séum að gagnrýna IPA-styrkina og þetta prógramm allt, þá hafa Íslendingar keypt sig inn í önnur prógrömm í og eru í samstarfi við Evrópusambandslönd um verkefni eins og (Forseti hringir.) Northern Periphery og fleiri áætlanir sem eru mjög góðar. Það er ekkert að því að taka þátt í slíkum verkefnum þegar við leggjum líka eitthvað á móti og höfum eitthvað um þau að segja.