140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[17:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Þingmaðurinn staðfestir það sem við höfum mörg hver haldið fram. Ríkisstjórnin sem hér situr hefur algjörlega brugðist, gjörsamlega brugðist í því að sýna einhverja byggðastefnu og styrkja samfélögin og byggðarlög í landinu svo að þau geti lifað af þær hörmungar sem ríkisstjórnin leggur á þau.

Nei, þess í stað er þeim beint inn á að koma á fjórum fótum og þiggja ölmusur frá Evrópusambandinu. Það er sú byggðastefna sem ríkisstjórnin rekur, að kvelja sveitarfélögin og þessar byggðir til að þiggja bitana af borði Evrópusambandsins, bitana sem notaðir eru til að kaupa fylgi við sambandið.

Ég er ekki að segja að þeir einstaklingar og aðilar sem stjórna þessum félögum láti glepjast. En þetta er staðfesting á því að þessir styrkir eru til þess fallnir að kaupa fylgi eða bæta orðspor Evrópusambandsins, það er ekkert öðruvísi. Ef þetta eru svona mikilvæg og góð verkefni hljótum við að spyrja okkur: Af hverju hefur ríkisstjórnin ekki sett fjármuni í slíkar aðgerðir? Ég veit ekki betur en að ríkisstjórnin hafi fundað á Suðurnesjum, á Egilsstöðum, á Ísafirði og lofað öllu fögru. Ekki gengur allt eftir sem þar er sagt. Hvers vegna er ekki farið í íslenska byggðastefnu? Til hvers er verið að þessu? Vegna þess að þessir peningar eru lagðir fram til að auðvelda að Ísland gangi í Evrópusambandið, þetta er ekkert öðruvísi.

Hv. þingmaður á ekki að koma hér upp og telja fólki trú um að þetta sé öðruvísi, þetta séu svo góðir uppbyggingarstyrkir eða eitthvað slíkt. Ég hef fulla samúð með fólkinu á Suðurlandi og fólkinu á Suðurnesjunum líkt og ég hef fulla samúð með þeim Íslendingum sem búa hringinn í kringum landið og búa nú við það að ríkisstjórnin er að reyna að eyðileggja lífsviðurværi þeirra, sem er sjávarútvegurinn. Á sama tíma er verið að halda svona brauðmylsnu að fólki í landinu. Þetta er bara til skammar, hv. þingmaður.