140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:00]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að þetta sé hárrétt ábending hjá hv. þingmanni. Ég fór aðeins yfir það í ræðu minni áðan, og vakti athygli á því í fyrri umræðu um þingsályktunartillöguna, að mér þætti mjög óeðlilegt hversu seint þingsályktunartillagan og frumvarpið berast eftir að samningurinn var undirritaður og frágenginn af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það gerðist 8. júlí í fyrra. Sex mánuðum síðar, 24. janúar, ræðum við þingsályktunartillöguna og þegar ég spurði hæstv. utanríkisráðherra að því af hverju þetta hefði tafist bar hann því við að frumvarpið hefði tafist í fjármálaráðuneytinu.

Eins og hv. þingmaður bendir á hefði verið hægðarleikur að koma fyrst inn með þingsályktunartillöguna, bara strax í upphafi þings, vegna þess að við fulltrúar í utanríkismálanefnd og þingmenn vitum að það er alsiða að við afgreiðum EES-mál, sumir segja á færibandi, með þeim hætti að við afléttum stjórnskipulega fyrirvaranum og síðan er boðað að þær lagabreytingar sem gera þarf í kjölfarið komi í sérfrumvarpi. Þannig gerum við þetta. Þetta er allt mjög undarlegt. Ekki var vitað hvernig utanríkismálanefnd yrði samsett þannig að ég vil kannski ekki fara þangað í samsæriskenningunni, en við vitum hins vegar að þetta mál hefur verið mjög til vandræða innan ríkisstjórnarflokkanna og innan ríkisstjórnarinnar. Til að koma aftur að samsærinu þá er það kannski frekar að þurft hafi að bíða eftir að fyrrverandi hæstv. ráðherra, hv. þm. Jón Bjarnason, viki úr ríkisstjórn til að hægt væri að leggja þetta fram.