140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:03]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Í ummælum hv. þm. Ragnheiðar E. Árnadóttur kemur fram að þetta kom beint inn á dagskrá þingsins eftir áramót og því bendi ég á að þá þegar var búið að ráðstafa á fjárlögum fyrir árið 2012 596 millj. kr. af þessum styrk. Ég tel því að ríkisstjórnin sé komin fram yfir valdheimildir sínar í málinu með því að setja upphæð sem er eyrnamerkt IPA-styrkjunum inn í fjárlögin og samþykkja það áður en þingið var búið að fá málið til umræðu.

Ég vil lýsa því yfir úr þessum ræðustól að ég tel að sá sem fer með dagskrárvaldið hér á Alþingi, forseti Alþingis, frú Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, sé á mörkum þess að brjóta þingsköp með því að hleypa þessu máli á dagskrá í frumvarpsformi áður en búið er að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara á þingsályktunartillögunni sem þarf að gera til að mál geti komist til umræðu. Ég gagnrýni því mjög hvernig þessi dagskrá var saman sett varðandi þessi tvö mál. Við vitum að samþykkja þarf þingsályktunartillögu til að aflétta þessum stjórnskipulega fyrirvara. Og við erum að tala um að 5 milljarðar séu undir, 5.000 milljónir.

Þetta sýnir enn og aftur hve ríkisstjórnin stendur tæpt og þá sérstaklega í þeim málum sem snúa að Evrópusambandinu og því máli sem snýr að IPA-styrkjunum. Ekki er nóg með að hún hafi farið fram úr sér með því að setja tæpar 600 millj. kr. inn í fjárlög 2012, ráðstafa þeim til ýmissa verkefna án heimildar Alþingis og aðkomu heldur er jafnframt verið að ræða þetta mál við 2. umr. og raunverulega er það ekki heimilt hjá þinginu fyrr en, eins og ég sagði áðan, að búið er að aflétta þessum stjórnskipulega fyrirvara. Hvað segir þingmaðurinn um það? Er hún sammála mér?