140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:05]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að nú þegar er búið að ráðstafa á fjárlögum tæpum 600 millj. kr., sem er mótframlagið sem íslensk stjórnvöld verða að leggja til þessara verkefna. Í títtnefndri fyrri umræðu um þetta mál spurði ég einmitt hæstv. utanríkisráðherra að því, hvað gerist ef samningurinn verður felldur? Á hverjum lendir þá kostnaðurinn?

Vegna þess hve þetta hefur tafist eru verkefnin komin af stað. Það er húrrandi gangur í þeim, mikil gleði að sjálfsögðu hjá starfsfólki í fjársveltum ríkisstofnunum sem nú fær tækifæri til að vinna verkefni sem það langar að gera. Verkefnin eru farin af stað en ekki er búið að staðfesta samninginn, Alþingi er ekki búið að klára málið. Hæstv. utanríkisráðherra svaraði því einmitt til að þetta mundi þá hugsanlega lenda á skattgreiðendum.

Mér finnst verklagið rangt og ég gagnrýni það harðlega. Eins og þingmaðurinn bendir á þá eru þess mál rædd í öfugri röð. Ég mundi halda að það frumvarp sem við ræðum hér þyrfti að fara aftur til nefndar og ég fór yfir atriði í ræðu minni sem ég tel að þyrfti að skoða betur miðað við það sem ég hef heyrt í umræðunni í dag. Nú kemur það kannski í ljós síðar en nefndarmenn hafa bestu yfirsýnina yfir það. Og hvar erum við þá stödd? Þá verður væntanlega að fresta atkvæðagreiðslu um þingsályktunartillöguna ef umræðu um hana lýkur, ef frumvarpið fer til nefndar. Þetta er allt saman unnið á þann veg að maður getur ekki fallist á það.