140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vitanlega alveg ljóst að við værum ekki að ræða þetta mál núna og þessir peningar lægju ekki einhvers staðar frammi ef við værum ekki í aðlögunarferli við Evrópusambandið. Það er vitanlega alveg hárrétt og ljóst.

Mikilvægt er að ítreka enn og aftur að stjórnvöld hafa auglýst og hvatt til þess að IPA-peningarnir séu nýttir í ákveðin verkefni. Þar af leiðandi þurfa stjórnvöld — og ég kalla eftir því að ríkisstjórnarflokkarnir staðfesti að þeir muni beita sér fyrir því að nái þetta IPA-dæmi ekki í gegn þá muni þessi verkefni njóta velvilja og velvildar hjá stjórnvöldum. Mér finnst það vanta, því að það eru jú þau sem hafa á ákveðinn hátt att fólki út í þetta.

Það er líka mikilvægt, virðulegi forseti, að fram komi þó svo að við sem tölum núna í þessu máli séum andvíg því flest að ganga í Evrópusambandið þá erum við líkt og meiri hluti þjóðarinnar á því að Íslendingar eigi að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og gildir í rauninni einu við hvaða lönd og við hvaða aðila það er ef það samstarf er gagnkvæmt. Ef það samstarf er þannig að báðir aðilar hagnist á því með einhverjum hætti, hvort sem það er fræðilega, efnahagslega eða á einhvern annan hátt, þá viljum við að sjálfsögðu taka þátt í því. Ég held að íslenska ríkið ætti jafnvel að skoða það hvort þeim fjármunum sem er verið að verja í þessa Evrópusambandsumsókn sé betur varið í að styrkja stöðu okkar í einhverju öðru samstarfi, ég segi nú bara við Evrópusambandið á sviði menntunar, atvinnuþróunar eða einhverju slíku, eða við Ameríku eða Asíulönd. Það eru endalaus tækifæri í alþjóðlegu samstarfi og vinnu með öðrum þjóðum. En við þurfum ekki að ganga í Evrópusambandið til þess. Við sem viljum stuðla og vera í slíku samstarfi getum líka leyft okkur að vera á móti því að ganga í Evrópusambandið.