140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:14]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna kemur hv. þingmaður inn á mjög mikilvægan punkt. Það er nefnilega þannig að vegna þess að ég er andvíg aðild okkar að Evrópusambandinu er mér legið á hálsi fyrir að vera einangrunarsinni og ég vilji ekkert útlenskt sjá og vilji ekki að Ísland eigi í samskiptum við aðrar þjóðir. Það er svo alrangt. Ég held einmitt að við sem erum þeirrar skoðunar að Ísland eigi að vera utan við Evrópusambandið séum upp til hópa — ég er það að minnsta kosti — miklir alþjóðasinnar. Ég vil samstarf Íslands á alþjóðavettvangi sem mest vegna þess að ég tel að við getum lært, aflað reynslu og þekkingar, komið á samböndum, samstarfi og viðskiptum ekki bara í Evrópu heldur að heimurinn allur sé undir.

Ég bjó í Bandaríkjunum og lærði í Bandaríkjunum og mér finnst að við eigum að horfa meira vestur. Þar eru ógrynni tækifæra, svo ég nefni ekki stór lönd lengra í burtu, Asíu og Indland svo einhver dæmi séu nefnd. Ég ítreka að auðvitað eigum við að sækjast eftir öllu því sem við getum fengið út úr Evrópusamstarfinu vegna þess að við erum fullgildir aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og við eigum að taka þátt í því og leggja til þess samstarfs með sama hætti vegna þess að það er ekki bara það hvað getum við fengið út úr því heldur líka hvert er framlag okkar og það á við um annað alþjóðasamstarf, t.d. á sviði öryggis- og varnarmála.

Mér finnst það mikil einföldun og það pirrar mig í umræðunni þegar því er skellt fram að maður hljóti að vera einangrunarsinni og eitthvert afturhald af því að maður vilji ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið. Það er ekki þannig. Þetta snýst um hagsmunamat og ég tel að hagsmunum okkar sé betur varið utan Evrópusambandsins og hef ekki verið sannfærð um annað.