140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:37]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um það að IPA-styrkirnir eru hluti af aðlögunarferli að Evrópusambandinu, enda er tilgangur þeirra sá. Það er alveg skiljanlegt að Evrópusambandið vilji tryggja að aðildarríkin uppfylli skilyrði sem sett eru fyrir aðild á þeim degi þegar aðild hefur verið samþykkt. Þetta hefur reynst mikilvægt í Austur-Evrópulöndunum sem stóðu á mörgum sviðum langt að baki hinum grónu Evrópusambandsríkjum hvað ýmsa innviði varðaði. Þess vegna var nauðsynlegt að setja í gang þetta þróunarprógramm fyrir lönd sem voru búin að sækja um aðild.

Það sem mér finnst mjög sérkennilegt í þessari umræðu er að þeir Íslendingar sem hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu skuli ekki viðurkenna þetta. Það er eitt að vera fylgjandi inngöngu í Evrópusambandið og játast þá undir það regluverk og þær kröfur og þá möguleika og það sem Evrópusambandið býður upp á en hitt finnst mér ákaflega dapurt, að þeir sem telja sig andvíga Evrópusambandinu og hafa lýst því yfir að ekki skuli hefja aðlögunarferli á tímabilinu eða þiggja aðlögunarfé til að aðlagast Evrópusambandinu á tímabilinu skuli samt styðja það að við tökum á móti IPA-styrkjum.

Ég vil spyrja hv. þingmann (Forseti hringir.) hvað valdi því að menn koma ekki hreint til dyranna og segja: Ég er fylgjandi Evrópusambandinu og ég vil ná í alla þá styrki sem hægt er, og hinir sem eru á móti því segi: (Forseti hringir.) Við erum á móti því að taka við þessu mútufé.