140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni kærlega fyrir þetta andsvar vegna þess að hann kemur hreint fram. Við skulum ekki gleyma því að hann er fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fékk að sjálfsögðu nasasjón af þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru þegar hann var ráðherra. Þetta er það sem við erum alltaf að tala um, við hér á þingi höfum eftir hrun verið að biðja um heiðarleika, um gegnsæi og að hætt verði að beita blekkingum til að koma málum í gegnum þingið, eins og þessi ríkisstjórn hefur svo margoft verið staðin að og ekki bara blekkingum heldur hefur verið beitt hótunum. Þá er ég að sjálfsögðu að vísa í Icesave-málið sem hefur komið í ljós að var beintengt við aðildarumsóknina og það aðlögunarferli sem hér á sér stað.

Þingmaðurinn fór yfir það að IPA-styrkirnir væru til þess að innleiða hér reglur og gerðir, sem kallast reglugerðir hér á landi. Ég fór yfir það í byrjun ræðu minnar að á dagskránni eru fleiri, fleiri mál og ekkert þeirra snýr að heimilunum, það eru tíu EES-mál. Ein blekkingin er t.d. að segja í þinginu: Þetta eru EES-mál, við skulum koma þeim í gegn. Það er eins og þegar lögfest var í EES-samningnum að við skyldum reiða af hendi rúma 7 milljarða næstu fimm árin í Þróunarsjóð EFTA. Það var nú eitt, sagt var að það væri vegna þess að við værum aðilar að EES en í raun var það krafa Evrópusambandsins að Íslendingar mundu lögfesta þetta.

Svo er það hitt, að IPA-styrkirnir eru þróunarstyrkir eins og þingmaðurinn fór yfir. Ég vil minna á að Evrópuþingmaður, ég man ekki frá hvaða landi hann er, vakti athygli á því að við Íslendingar þyrftum alls ekki þróunarstyrki sem fælust í IPA-styrkjunum vegna þess að við værum ekki vanþróað (Forseti hringir.) ríki og ekki svo illa stödd fjárhagslega að við þyrftum á því að halda. Þetta mál er meira að segja gagnrýnt af Evrópusambandinu sjálfu.