140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[19:50]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Nú hygg ég að hv. þingmaður hafi setið í þeirri nefnd sem hafði þetta lagafrumvarp til umfjöllunar og að sú nefnd hafi fengið gesti á sinn fund, komið hafi umsagnir o.fl. Mig langaði þess vegna að spyrja hv. þingmann hver hafi almennt verið skoðun þeirra gesta sem komu fyrir nefndina og umsagnaraðila á þeim skattfríðindum sem þarna eru lögð til og hv. þingmaður gerði ágætlega grein fyrir í ræðu sinni. Fannst hv. þingmanni að það væri stuðningur við þetta hjá þeim sem komu fyrir nefndina eða hið gagnstæða? Það væri fróðlegt að fá sýn hv. þingmanns á það.

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni í lokin að hann teldi eðlilegra að veita þessa fjármuni til Grikkja og ríkja sem ættu við erfiðleika að stríða: Telur hv. þingmaður á einhvern hátt eðlilegt að umsóknarríki sem er að sækja um aðild að Evrópusambandinu þiggi styrki sem þessa, hvort sem þeir tengjast aðlögun með beinum hætti eða verkefnum sem eru alls óskyld? Það hefur meðal annars komið fram að IPA-styrkir séu einungis í boði fyrir umsóknarríki, ekki eftir að þau eru orðnir aðilar að Evrópusambandinu. Er eðlilegt að Evrópusambandið beri fé á þjóð með þessum hætti til óskyldra verkefna á meðan hún er að sækja um aðild að Evrópusambandinu og yfirskinið er að lýðræðisleg kosning skuli fara fram um það (Forseti hringir.) hvort Ísland vilji gerast aðili að Evrópusambandinu? Er þetta ekki villandi og vinnur þetta ekki gegn þeim lýðræðissjónarmiðum?