140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, þetta eru töluvert miklir peningar, 1.100 millj. kr., sem er óútskýrð tala í þessu mengi öllu saman og ég tek undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að fá einhverjar skýringar á þessum mismun. Það þarf ekki að vera að það sé neitt óheiðarlegt eða skrýtið í þessu, það þurfa bara að koma fram skýringar á mismuninum.

Það er líka eðlilegt að gera kröfu um að fyrir liggi einhvers konar lýsingar á þeim verkefnum og því sem verið er að tala um þarna. Ég velti því fyrir mér, frú forseti, hvort við förum eftir stjórnarskrá og almennum lögum sem við höfum hér á landi þegar við ætlum tveimur lögaðilum að starfa hlið við hlið í einhverju verkefni, annar aðilinn nýtur einhvers konar sérkjara vegna þess að hann er teiknaður upp sem erlendur aðili en hinn nýtur engra sérkjara. Það kann að vera að það séu einhver dæmi um það í lögum, ég man það nú ekki í svipan, en það er mjög undarlegt að koma með lagafrumvarp sem gerir beinlínis ráð fyrir því fyrir fram að aðilar sem vinna hlið við hlið að verkefni sem nýtur þessara styrkja standi misvel að vígi, að annar aðilinn standi miklu betur að vígi en hinn.

Þá veltir maður fyrir sér: Eru einhverjar líkur á að íslensk fyrirtæki eða Íslendingar fari í einhverjar æfingar með að stofna fyrirtæki erlendis og búa til kennitölu þar til þess að komast inn í þessi verkefni? Það eru töluverðir peningar sem um er að ræða. Maður veltir fyrir sér hvort ekki sé betra, ef fara á með frumvarpið í gegnum þingið, að gera fólki jafnt undir höfði sem vinna mun fyrir þann aur sem verið er að rétta Íslendingum.