140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:35]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Varðandi ósamræmið í tölunum sér maður slíkt víða í þessu máli. Staðreyndirnar eru þær að í fjárlögum sem Alþingi Íslendinga hefur samþykkt, bæði fyrir árið 2011 og 2012, er ekki annað að sjá en að þar séu bara 300 plús 596 millj. kr. Upplýsingarnar sem liggja fyrir okkur með grófri lýsingu á verkefnum eru hins vegar að fjárhæð um 2 milljarðar kr. Maður spyr sig: Hvar er verið að ráðskast með þetta fé? Er einhver misskilningur í gangi? Af hverju er hann þá ekki leiðréttur?

Hvernig á að fara með skattlagningu þess sem áður hefur verið unnið? Við þeim spurningum fást ekki nokkur svör. Það eru eðlilegar spurningar að því er mér finnst. Meira að segja gekk þetta svo langt að mér tókst að sannfæra hv. þm. Jón Bjarnason um að ég væri nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd en þetta eru nú fyrst og fremst fjárlaganefndarhugleiðingar því að þessi mál hafa verið inni á borði hjá okkur í þessum talnagrunni, en ekki síður vegna þess að við höfum verið að leita eftir upplýsingum í tvö ár um það út á hvað þessi verkefni ganga, hvaða fjárhæðir eru í kortunum. Við erum greinilega ekki enn komin með skýr svör í þeim efnum. Það er mjög miður þegar um svo stórt mál er að ræða.

Svo ég ljúki svörum við spurningu hv. þingmanns sýnist mér íslenskir aðilar hafi ekki neina stöðu til þess að vinna með sambærilegum hætti úti á Evrópska efnahagssvæðinu eins og erlendum aðilum, ESB-verktökum, er gert kleift með þessum lögum að vinna hér á Íslandi og auðvitað er ákveðið misræmi í því.