140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessum spurningum hv. þingmanns má svara jákvætt. Auðvitað er niðurlægjandi fyrir okkur að svara fjandsamlegum aðgerðum af hálfu Evrópusambandsins með því að biðja þá um styrki á sama tíma. Það er líka mikið vafamál, burt séð frá Icesave-deilunni, makríldeilunni og öllu slíku, hvort vel fari á því yfir höfuð þegar aðilar eru að semja að annar aðilinn sé hinum háður. Það er vafamál hvort vel fer á því að á sama tíma og við semjum við Evrópusambandið um atriði sem okkur finnst skipta veigamiklu máli eins og á sviði sjávarútvegsmála eða landbúnaðarmála, séum við að reyna að kría út styrki úr Evrópusambandinu. Það hlýtur auðvitað að hafa áhrif á samningsstöðu manna þegar þeir eru í þeirri aðstöðu. Það fer auðvitað ekki vel á því, ef við lítum á Ísland og Evrópusambandið sem (Forseti hringir.) tvo sjálfstæða aðila sem eiga í samningaviðræðum, að annar aðilinn sé á sama tíma að gerast hinum háður.