140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:05]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að staða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er mjög snúin í þessu máli. Bæði landsfundarsamþykktir og flokksráðssamþykktir eru gegn því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það eru líka samþykktir gegn því að taka við aðlögunarstyrkjum. Það eru samþykktir gegn því að farið sé í aðlögunarferli á sama tíma. Það er því hárrétt að þessi ESB-vegferð sem ríkisstjórnin fór og er í hefur verið mikil blóðtaka fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Þingmenn hafa horfið úr flokknum vegna þessa og miklar úrsagnir eru víða um land úr forustuliði flokksins. Það er hárrétt.

Hins vegar ítreka ég að flokkurinn hefur ályktað um að ekki skuli tekið við aðlögunarstyrkjum og aðlögunarfé í þessu ferli. Ég hef staðið með því og stend með þeim samþykktum.

Hv. þingmaður vék líka að diplómatískri stöðu Evrópusambandsins. Af því hv. þingmaður er lögfræðingur langar mig til að spyrja: Hver er staða sendiherra ESB hér á landi í þessum efnum ef hann heyrir undir Vínarsáttmálann um diplómata? Hefur hann þá rétt til að boða hér áróðursfundi í sínu nafni fyrir Evrópusambandið fyrir inngöngu okkar í Evrópusambandið ef hann er samtímis með diplómataréttindi og diplómatastöðu hér á landi? Hver er staða sendiherra ESB (Forseti hringir.) hér og annars sendiráðsfólks sem leyfir sér að grípa inn í innanríkismál Íslands með þessum hætti?